Á föstudaginn voru Jan Cercel, 45 ára, og Dobre Elena-Lavinia, 36 ára, sakfelld fyrir mansal og nauðgun og fyrir að hafa neytt konuna til að stunda vændi.
Ekstra Bladet skýrir frá þessu og segir að þau hafi bæði verið dæmd í þriggja ára fangelsi og verði vísað úr landi að afplánun lokinni og mega þau aldrei aftur koma til Danmerkur.
Það var í febrúar sem konan var lokkuð til Danmerkur undir því yfirskini að um frí væri að ræða. Hún bjó heima hjá Cercel í Brøndby og það var einmitt þar sem hún var neydd til að stunda vændi.
Hún var beitt ofbeldi og skilríki hennar voru tekin af henni.
En það var ekki nóg með að hún væri neydd til að stunda vændi, því Cercel og Lavinia nauðguðu henni í sameiningu og neyddu hana til að veita þeim báðum munnmök.
Þau voru dæmd eftir mansalsákvæði dönsku hegningarlaganna en mjög sjaldgæft er að því ákvæði sé beitt því yfirleitt gengur illa að sanna að um mansal hafi verið að ræða.