Jólin tengjast í hugum flestra huggulegheitum heima, ákveðnum mat, hefðum og gjöfum. En ýmis dýr og fígúrur tengjast jólahátíðinni einnig, til dæmis jólasveinar, hreindýr og jólakötturinn góði. Margir tengja jólin einnig við góðmennsku og kærleika en sumir standa hins vegar hinum megin við línuna og hafa hlutina þveröfuga.
Það þekkja íbúarnir í kaffibænum Gävle vel en flestir kannast eflaust við kaffið þaðan en það heitir Gevalia (sem er latneska heiti bæjarins).
En bærinn er einnig þekktur fyrir jólageitina, Gävlegeitina. Samkvæmt gamalli sænskri trú þá var það jólageitin sem kom með gjafirnar áður en jólasveinninn tók við því verkefni. Af þessum sökum skipar jólageitin sérstakan sess í huga Svía.
Gävlegeitin er sett upp í hallargarðinum í miðbænum hvert ár en það hefur verið gert óslitið síðan 1966.
Hún er 13 metra há og er gerð úr hálmi. En því miður hefur sú hefð skapast hjá sumum að þeir vilja eyðileggja hana og því var tekið upp á því á síðasta ári að setja upp myndavélaeftirlitskerfi við geitina og einnig eru vaktmenn við hana.
Enginn veit með vissu af hverju sumir vilja svo gjarnan eyðileggja geitina en frá 1966 hafa skemmdarvargar valdið skemmdum á henni 38 sinnum. Það var fyrst kveikt í henni 1966 og eru íkveikjur sú tegund skemmdarverka sem hún hefur oftast orðið fyrir barðinu á.
Geitinni hefur líka verið stolið og árið 1973 var þjófurinn greinilega mjög hrifinn af geitinni því hann setti hana upp í garðinum heima hjá sér. 1976 var Volvo ekið á hana og hún eyðilögð. Hún komst í Heimsmetabók Guiness 1985 vegna stærðar sinnar og þetta sama ár var kveikt í henni. 2001 kveikti bandarískur ferðamaður í henni og hún brann til kaldra kola. Bandaríkjamaðurinn var dæmdur í 18 daga fangelsi og til að greiða 100.000 sænskar krónur í sekt.
Ein minnisstæðasta atlagan að henni var 2008 en þá skutu tveir ungir menn, sem voru klæddir sem jólasveinn og piparkökukarl, logandi örvum í hana. Hún brann niður og það þurfti að setja nýja upp.
2021 var fertugur Svíi dæmdur í sex mánaða fangelsi og til að greiða 109.000 sænskar krónur í bætur eftir að hann kveikti í henni.
Á síðasta ári var enn einu sinni gerð atlaga að henni en þá voru það hungraðir fuglar sem átu hana áður en skemmdarvargar gátu hafist handa.