Cecchettin var stungin rúmlega 70 sinnum. Lík hennar var síðan vafið inn í svarta plastpoka og hent í skurð nærri vatni norðan við Feneyjar. Þetta gerðist í nóvember á síðasta ári.
Turetta, fyrrum unnusti hennar, var handtekinn í Þýskalandi 19. nóvember á síðasta ári, degi eftir að lík hennar fannst.
Þegar hann kom fyrir dóm í október sagðist hann hafa skipulagt ránið á Cecchettin og að hafa ætlað sér að myrða hana. Ástæðan var að hún vildi ekki taka upp ástarsamband við hann á nýjan leik.
Auk þess að vera dæmdur í ævilangt fangelsi, þarf hann að greiða fjölskyldu Cecchettin 760.000 evrur í miskabætur.
Cecchettin hvarf 11. nóvember 2023 eftir að hún hafði farið í verslunarmiðstöð í Marghera, með Turetta, til að kaupa sér föt.
Þegar lögreglan fór að leita að henni fékk hún upptökur úr eftirlitsmyndavél við þjóðveg einn, sem sýndu Turetta lemja Cecchettin. Hún sást reyna að sleppa frá honum en hann neyddi hana til að fara aftur inn í bílinn.
Frá því að Cecchettin var myrt, hafa 106 konur til viðbótar verið myrtar af körlum á Ítalíu. Í flestum málanna er eða var morðinginn í ástarsambandi við konuna.