Það voru bræðurnir Marin og Milos Miladinovic, sem eru 49 og 40 ára, sem hlutu þessa þungu dóma. Málið er í stærri kantinum því þeir voru fundnir sekir um að hafa selt og dreift að minnsta kosti 849 kílóum af kókaíni og heróíni frá íbúð í Albertslund. Þetta gerðu þeir frá því í september 2019 þar til í apríl 2022.
Lögreglan komst á slóð þeirra þegar hún náði að komast inn á dulkóðuðu skilaboðaveituna SKY-EEC. Bræðurnir, eins og svo margir aðrir glæpamenn, töldu að lögreglan gæti ekki fylgst með því sem fram fór þar en það reyndist örlagaríkur misskilningur hjá þeim.
Þeir geta hins vegar stært sig af að vera fyrstu eiturlyfjasalarnir í Danmörku sem fá 20 ára dóm en það er hámarksrefsingin fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Venjulega er refsingin í fíkniefnamálum ekki hærri en 16 ára fangelsi.
Dómstóllinn gerði einnig upptækar eignir að verðmæti sem svarar til um 400 milljóna íslenskra króna en þetta var hluti af ávinningnum af fíkniefnasölunni.
Auk þess að vera sakfelldir fyrir sölu og dreifingu á fíkniefnum, voru þeir fundnir sekir um vörslu fjölda skotvopna. Þar á meðal eru skammbyssa með hljóðdeyfi, tveir M-75m sjálfvirkir rifflar og fjöldi skammbyssa.
Bræðrunum verður vísað úr landi fyrir fullt og allt þegar þeir hafa lokið afplánun dómsins.