Samkvæmt lögunum, sem þingið hefur samþykkt, þá þarf kínverska fyrirtækið ByteDance, sem á TikTok, að vera búið að selja samfélagsmiðilinn í síðasta lagi daginn áður en Trump tekur við völdum, að öðrum kosti verður starfsemi miðilsins bönnuð í Bandaríkjunum.
Lögmenn Trump segja að réttast sé að hæstiréttur fresti gildistöku laganna svo Trump geti fundið pólitíska lausn á málinu.
Lögin voru samþykkt vegna áhyggna bandarískra stjórnmálamanna um að ByteDance láti kínverskum yfirvöldum í té gögn um bandaríska notendur samfélagsmiðilsins.
Á fyrri forsetatíð Trump, reyndi hann að banna TikTok í Bandaríkjunum og vísaði þar í þjóðaröryggi. Hann lagði þá til að bandarískt fyrirtæki myndi kaupa TikTok.
En hann hefur skipt um skoðun en telur að gagnaöryggið verði að vera betra. Í samtali við Bloomberg sagðist hann hlynntur því að TikTok fái að starfa áfram því það sé þörf fyrir samkeppni. „Ef þú ert ekki með TikTok, þá ertu með Facebook eða Instagram og þú veist það er Zuckerberg,“ sagði hann.
Mark Zuckerberg er stofnandi Facebook en miðillinn er meðal þeirra samfélagsmiðla sem neituðu Trump um aðgang eftir að stuðningsmenn hans réðust á bandaríska þinghúsið í janúar 2021.