Lögreglan og fjölmiðlar hafa kafað ofan í fortíð árásarmannsins, sem er frá Sádí-Arabíu, og eitt og annað hefur komið upp á yfirborðið. Bild segir að nú virðist sem hann sé ekki menntaður læknir en skýrt var frá því að hann væri það skömmu eftir að hann var handtekinn.
Hann starfaði sem sálfræðingur og deildarlæknir í Bernburg-fangelsinu. Sjúklingar þar höfðu kvartað undan honum því hann kunni að sögn ekki að sprauta fólk, ávísaði röngum lyfjum og kom ítrekað með rangar sjúkdómsgreiningar.
Bild segist hafa heimildir fyrir að vísbendingar séu um að maðurinn hafi hugsanlega ekki lokið læknisnámi. Fram kemur að honum hafi verið bannað að veita sjúklingum meðferð á læknastofu í Bern og síðar í Salus. Var það gert í kjölfar þess að hann ávísaði röngum lyfjum.
Heimildarmaður Bild sagði að athugulir hjúkrunarfræðingar hafi tekið eftir þessu og hafi getað komið í veg fyrir að sjúklingar tækju röng lyf.
Lögreglan segir að nú sé verið að skoða hvort maðurinn verði einnig kærður fyrir svik, skjalafals og tilraunir til að valda fólki líkamstjóni.
Maðurinn er fimmtugur. Hann hefur búið og starfað í Þýskalandi síðan 2006.
Frankfurter Rundschau segir að hann hafi árum saman birt gagnrýni á Íslamstrú á samfélagsmiðlinum X og hafi orðið sífellt virkari og öfgasinnaðri eftir því sem árin liðu.
Í færslum sínum hefur hann meðal annars skrifað að Þýskaland vilji „Íslamsvæða“ Evrópu og þýsk yfirvöld ofsæki sádi-arabíska hælisleitendur innanlands og utan til að eyðileggja líf þeirra.