Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum um allan heim varð skelfilegt flugslys í Suður-Kóreu í gær. Boeing-737 þota flugfélagsins Jeju Air fór út af flugbrautinni á flugvellinum í bænum Muan og endaði á steinsteyptum vegg. Mikill eldur gaus upp með þeim afleiðingum að 179 manns af þeim 181 sem voru um borð létust. Einstaklingarnir tveir sem komust einir lífs af segjast ekkert muna eftir öðru en aðdraganda slyssins og hafa því í raun ekki hugmynd hvernig þau fóru að því að lifa af.
Daily Mail fjallar um þessi fyrstu orð sem höfð hafa verið eftir eftirlifendunum tveimur en um er að ræða tvo meðlimi áhafnarinnar, flugfreyju og flugþjón.
Talið er einna líklegast að þau hafi lifað af þar sem þau sátu alveg aftast í vélinni en það var eini hluti vélarinnar sem brann ekki til kaldra kola.
Flugþjóninn er 33 ára gamall og sagður heita Lee Mo. Hann var að sögn afar ringlaður þegar hann vaknaði á spítala. Hann spurði hvar hann væri staddur og hvað hefði gerst. Hann man eftir því að hafa setið í sæti sínu með sætisólarnar spenntar áður en slysið varð en man ekkert hvað gerðist eftir það. Hann hlaut höfuðáverka og axlarbrot.
Flugfreyjan er 25 ára gömul og aðeins eftirnafn hennar, Koo, hefur verið gefið upp. Hún hefur sagt að eldur hafi komið upp í öðrum hreyfli vélarinnar áður en hún lenti á veggnum og hreyfillinn síðan sprungið.
Þetta er það eina sem hún man en hún ökklabrotnaði og hlaut höfuðáverka í slysinu.
Slysið varð í gær að staðartíma í Evrópu en þá var 30. desember þegar runninn upp í Suður-Kóreu. Skömmu fyrir lendingu tilkynnti flugstjórinn að flugvélin hefði rekist á fugla og hætti við lendinguna. Hann reyndi síðan aðra lendingu en þá virðist lendingarbúnaður ekki hafa virkað sem skyldi með þeim afleiðingum að lendingin varð allt of hröð. Hjól vélarinnar fóru ekki niður og viðeigandi bremsubúnaði var ekki beitt.
Enn á eftir að bera kennsl á 28 af þeim 179 sem létust í slysinu sem er eitt það versta í sögu Suður-Kóreu.
Ættingjar hinna látnu hafa safnast saman á flugvellinum. Maður sem missti dóttur sína í slysinu, en hún var á fimmtugsaldri, segist vart enn trúa því sem hafi gerst eftir að hafa séð myndbandið af slysinu en eftirlitsmyndavélar flugvallarins náðu því glögglega á upptöku.
Á myndbandinu má sjá að auk þess sem að hjól vélarinnar fóru ekki niður voru blaktar hennar ( e. flaps) ekki úti. Blaktar eru búnaður sem skagar út úr vængjum allra flugvéla þegar flugmenn stilla hann þannig í lendingu en. Blaktar eru bráðnauðsynlegir í lendingu þar sem þeir halda flugvélinni nægilega vel á lofti á meðan flugmenn draga úr hraðanum.
Ljóst þykir að slysið hefði ekki orðið nærri því svona alvarlegt og mun fleiri lifað af ef veggurinn sem vélin endaði á hefði ekki verið jafn nálægt flugbrautinni og raun ber vitni. Fullyrt er þó að flugvöllurinn hafi verið hannaður samkvæmt alþjóðlegum reglum
Deildar meiningar eru meðal flugmanna um slysið. Talið er líklegt að fuglarnir sem vélin rakst á hafi skemmt sjálfvirka vökvakerfið sem stýrir lendingarbúnaðinum en sumir flugmenn á 737 þotum segja að þrátt fyrir slíkar skemmdir sé samt hægt að nota lendingarbúnaðinn en gera verði það þá handvirkt í flugstjórnarklefanum. Einnig notuðu flugmennirnir afturbrennarann, sem hægir á flugvélum þegar þær lenda á flugbrautum, á aðeins öðrum hreyfli vélarinnar sem sumum flugmönnum þykir skrýtið að hafi verið mögulegt hafi raunin verið sú að vökvakerfið hafi ekki virkað sem skyldi.
Það virðist því ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar þegur kemur að þessu hræðilega flugslysi.