Í samtali við Daily Star sagði hann að 2025 verði árið sem stjórnvöld byrji loksins að viðurkenna opinberlega að líf sé að finna utan jarðarinnar. Þetta verði annað hvort í formi örverulífs á Mars eða flóknara líf annars staðar.
Hann spáir því að upp komist um leynilegar erfðafræðitilraunir og að í ljós komi að til sé erfðabreytt fólk. Vísindamenn hafi notað ýmsa tækni, þar á meðal klónun, til að búa til „fullkomna“ einstaklinga sem séu gáfaðri, sterkari og með meiri mótstöðu gegn sjúkdómum.
Gervigreind kemur einnig við sögu í spádómi hans því hann segir að á næsta ári nái þróun gervigreindar þeim punkti að ekki verði aftur snúið. Alvarlegur atburður muni sýna hversu sjálfstæð gervigreind sé og að hún hafi í sumum tilfellum þróað með sér eiginleika sjálfsvitundar.
Orkuskortur mun hrella jarðarbúa á næsta ári að hans sögn en þar verður um manngerðan orkuskort að ræða sem verður notaður til að hafa stjórn á fólki.
Hann varar við tækni, sem verði notuð til að fylgjast með fólki. Þar á meðal eru örflögur sem verði græddar í fólk undir því yfirskini að þær tengist öryggismálum og heilsufari.
Þegar kemur að náttúruhamförum spáir hann því að verkfræði verði notuð til að búa til náttúruhamfarir á borð við fellibylji og þurrka á stöðum þar sem slíkar hamfarir eiga ekki að geta átt sér stað.