Eins og kunnugt er lést James Earl Carter, betur þekktur sem Jimmy Carter, í gær 100 ára að aldri. Carter var forseti Bandaríkjanna frá 1977-1981 og fjölmiðlar víða um heim hafa rifjað upp ævi hans og starfsferil og gert grein fyrir stöðu hans í sögunni, frá ýmsum hliðum. Almennt séð hefur forsetatíð Carter hlotið í besta falli misjafna dóma en þeim mun meira lof fékk hann fyrir störf sín að mannúðar- og friðarmálum eftir að hann lét af embætti forseta. Hér á eftir verða rifjuð upp nokkur eftirminnileg brot úr ævi Jimmy Carter og þá atriði sem ýmist þóttu sýna hann í góðu ljósi eða ekki koma nógu vel út fyrir alþýðumanninn frá Georgíu ríki sem varð valdamesti maður heims.
Mikið fjölmiðlafár varð fyrir forsetakosningarnar 1976 þar sem Carter bauð sig fram gegn sitjandi forseta Gerald Ford. Tilefni fársins var viðtal erótíska tímaritsins heimsþekkta, Playboy, við forsetaframbjóðandann. Carter, sem hafði þá verið giftur konu sinni Rosalynn, sem lést sjálf á síðasta ári, í 30 ár og eignast með henni 4 börn, viðurkenndi fúslega að hann hefði borið innra með sér lostugar hugsanir í garð annarra kvenna:
„Ég hef horft til annarra kvenna með losta í huga. Ég hef mörgum sinnum drýgt hór í hjarta mínu.“
Hlaut hann töluverða gagnrýni í fjölmiðlum fyrir þessa hreinskilni sína og álitsgjafar sögðu að með henni hefði Carter stuðlað að því afmá þau mörk sem yrðu að vera á milli opinbers lífs stjórnmálamanna og þess hvað þeir gerðu og hugsuðu í einkalífinu, en með tímanum hurfu þessi mörk í raun alfarið.
Þessi orð hans í viðtalinu við Playboy kostuðu Carter þó ekki sigur í kosningunum 1976 en áttu mögulega sinn þátt í að sigurinn var naumari en stefndi í lengi framan af kosningabaráttunni.
Carter lagði mikla áherslu á í forsetatíð sinni að vera með sem mesta þekkingu á þeim viðfangsefnum sem hann og ríkisstjórn hans stóðu frammi fyrir. Oft náði þekking hans niður í minnstu smáatriði.
Fyrir þetta hlaut hann bæði lof og last. Honum var hrósað fyrir að hafa vit á því sem hann var að tala um en um leið var hann gagnrýndur fyrir að leggja of mikla áherslu á smáatriði í stað þess að einblína á heildarmyndina eins og hlutverk forsetans ætti að vera.
Önnur hlið á þessari áherslu Carter á smáatriðin var hins vegar sú að hann vissi að það eru oft þau sem snerta líf almennra borgara einna mest og hann var alla tíð afar hjálpsamur í garð fólks.
Þessar áherslur Carter á smáatriðin urðu handritshöfundum grínþáttanna Saturday Night Live að yrkisefni. Þátturinn hefur verið sýndur í beinni útsendingu í bandarísku sjónvarpi síðan 1975 en í honum er ekki síst gert grín að málefnum líðandi stundar í stuttum grínatriðum. Í atriði sem sýnt var fyrst 1977 fer leikarinn Dan Aykroyd með hlutverk Carter en í því tekur forsetinn við símtölum frá almennum borgurum og aðstoðar þá með allt milli himins og jarðar svo sem lagfæringar á póstflokkunarvélum, hvernig best sé bregðast við sýrutrippi og finna týnda peninga.
Forsetatíð Jimmy Carter litaðist ekki síst af sífelldum efnahagserfiðleikum, til að mynda verðbólgu og atvinnuleysi. Orkuskortur, helst vegna hás verðs á innfluttri olíu, var viðfangsefni sem stjórn hans náði aldrei nægum tökum á, almenningi til töluverðrar gremju. Carter lagði mikla áherslu á að móta nýja stefnu í orkumálum meðal annars með orkusparnaði og nýjum orkugjöfum, til dæmis sólarorku.
Carter ávarpaði þjóðina nokkrum sinnum vegna stöðunnar í orkumálum. Það þekktasta af þessum ávörpum flutti hann sumarið 1979 en þessi ræða hefur síðan þá verið kölluð „vanlíðanarræðan“ ( e. malaise speech). Í ræðunni tengdi Carter erfiða stöðu í orkumálum við að það væri áþreifanlegt að þjóðina skorti sjálfstraust og trú á að landið væri á góðri leið. Í staðinn fyrir að stappa stálinu í þjóðina og segja að allt yrði gott aftur tók Carter hins vegar til við að í raun skamma hana að vissu leyti og segja að hver og einn yrði að leggja meira af mörkum til að takast á við stöðuna. Í ræðunni gagnrýndi hann það sem hann kallaði óhóflega neysluhyggju í bandarísku þjóðfélagi og of mikla áherslu á efnislega hluti.
Ræðan var ekki alveg það sem margir kjósendur vildu heyra frá forsetanum. Hlaut hann töluverða gagnrýni fyrir frá mörgum og sagt er að með ræðunni hafi hann nánast tryggt að hann myndi ekki ná endurkjöri í forsetakosningunum 1980.
Í umfjöllun The Atlantic er bent þó á að málið sé ekki svona einfalt. Vinsældir Carter hafi snaraukist í könnunum eftir ræðuna og með henni hafi hann í raun verið að reyna að tengjast þjóð sinni á dýpri hátt en venjan hafi verið þá og síðar með forseta Bandaríkjanna. Önnur atriði hafi lagt meira af mörkum til ósigurs hans í forsetakosningunum 1980.
Auk erfiðleika í efnahagsmálum var það einna helst gíslatakan í sendiráði Bandaríkjanna í Íran 1979-1981 sem gerði út af við möguleika Carter á endurkjöri.
Hún snerist í stuttu máli um að á sjöunda tug bandarískra ríkisborgara voru teknir í gíslingu í sendiráðinu og þess krafist að í staðinn fyrir að þeir yrðu látnir lausir yrði fyrrum keisari Íran, sem flúið hafði til Bandaríkjanna í kjölfar byltingarinnar í landinu, framseldur. Hluta gíslanna var sleppt en þeir sem lengst voru í haldi voru látnir lausir 20. janúar 1981 eftir 444 daga í gíslingu. Tekist hafði að semja um lausn þeirra án þess að keisarinn yrði fluttur aftur til Íran. Tilkynnt var um þetta eftir að Ronald Reagan tók við forsetaembættinu þennan dag en því hefur löngum verið haldið fram að menn á hans á vegum hafi komið því til leiðar að tefja fyrir lausn gíslanna til að tryggja kjör hans og að gíslarnir yrðu ekki leystir úr haldi fyrr en hann hefði tekið við sem forseti.
Vorið 1980 höfðu gíslarnir verið í haldi í um hálft ár og þá fyrirskipaði Carter björgunaraðgerð. Hún misheppnaðist gjörsamlega og þótti mörgum það vera táknrænt fyrir vangetu og vanhæfni Carter og stjórnar hans við að frelsa gíslana. Átta herþyrlur voru sendar af stað með hermenn en þrjár þeirra biluðu á leiðinni. Þá var hætt við aðgerðina en í kjölfarið lenti ein þyrlanna sem enn virkaði í árekstri við eldsneytisflutningavél með þeim afleiðingum að átta hermenn létust.
Frekari björgunaraðgerðir voru ekki reyndar og í ræðu viðurkenndi Carter ábyrgð sína. Vinsældir hans snarminnkuðu og endurkjör varð nánast ómögulegt. Hann ræddi málið í viðtali 20 árum síðar:
Það sem Carter hefur helst hlotið lof fyrir eru störf hans að mannúðar- og friðarmálum ekki síst eftir að hann lét af embætti forseta. Hlaut hann til að mynda friðarverðlaun Nóbels árið 2002. Eitt mesta afrek hans á forsetastóli þótti þó þegar hann kom á friðarsamkomulagi milli Ísraels og Egyptalands en hann hélt síðan áfram að vinna að friði í heiminum eftir að hann hætti sem forseti.
Eitt dæmi um mannúð Carter er mál konu að nafni Mary Prince. Hún var dæmd í Georgíu í lífstíðarfangelsi fyrir morð en þegar Carter-hjónin kynntust henni gerðu þau sér grein fyrir að hún hefði alls ekki, eins og svo margt annað hörundsdökkt fólk, hlotið réttláta málsmeðferð í dómskerfinu. Prince var ráðin til að gæta yngsta barns hjónanna, Amy. Þegar fjölskyldan flutti til Washington þegar Carter tók við forsetaembættinu fór Prince með og hélt áfram að gæta Amy. Til að það væri hægt fékk Carter því framgengt að hann yrði skipaður skilorðseftirlitsmaður Mary. Hún var síðar náðuð og hreinsuð af öllum ákærum og hefur haldið góðu sambandi við Carter-fjölskylduna allt fram til dagsins í dag.
Forseti Bandaríkjanna réð barnfóstru sem var á sakaskrá fyrir morð