Sky News skýrir frá þessu og segir að lögin, sem tóku gildi á sunnudaginn, tryggi fólki í þessari starfsstétt meiri réttindi en það hefur haft. Það á nú rétt á ráðningarsamningi og hefur nú lagalegan rétt til að hafna því að eiga viðskipti við ákveðna aðila, það getur einnig valið hjá hverjum það starfar og stöðvað kynlífið á hvaða stigi sem er.
Belgar afglæpavæddu vændi fyrir tveimur árum. Í Þýskalandi og Hollandi er vændi löglegt en í hvorugu landinu hefur leið Belganna verið farin með því að tryggja stöðu þeirra, sem það stunda, á vinnumarkaði.
Í nýju lögunum er kveðið á um vinnutíma, laun og öryggismál. Einnig er fólki tryggður aðgangur að ókeypis heilbrigðisþjónustu, launuðu leyfi, barneignarfríi, atvinnuleysisbótum og eftirlaunum.
Atvinnurekendur verða að útvega fólkinu hrein sængurföt, smokka og hreinlætisvörur og setja upp neyðarhnappa á vinnustöðum þess.