Flestir kannast eflaust við að hafa vaknað upp með þvílíka andfýlu að varla er hægt að lýsa óþefnum. En sem betur fer eru til ýmis ráð til að takast á við þessi leiðindi.
Það er þó ekki úr vegi að byrja á að svara því af hverju fólk vaknar með andfýlu. Ástæðan er að munnurinn þornar um nóttina. Þegar munnvatnsins nýtur ekki lengur við til að skola munninn geta bakteríurnar leikið lausum hala. Þær elska að mynda brennisteinssambönd sem valda hinni velþekktu andfýlu. En aðrir þættir koma einnig við sögu og má þar nefna lélega tannhirðu, þurran munn, kryddaðan mat og áfengisneyslu kvöldið áður.
En snúum okkur þá að ráðunum til takast á við þennan hvimleiða vanda:
Burstaðu tennurnar og notaðu tannþráð – Þetta eru auðvitað grundvallaratriði góðrar tannhirðu en þú þarft að gæta þess að ná út til allra króka og kima í munninum, ef ekki, þá er veisla hjá bakteríunum. Gættu þess því að bursta tennurnar og tunguna vel því tungan er oft uppspretta lyktar sem þú vilt helst sleppa við.
Drekktu vatn fyrir háttatímann og þegar þú ferð á fætur – Þurr munnur er einn stærsti sökudólgurinn þegar kemur að andfýlu. Auðveld lausn á þessu er að drekka eitt glas af vatni fyrir háttinn og annað þegar þú vaknar. Það tryggir raka í munninum og hjálpar til við að skola bakteríunum á brott.
Notaðu munnskol – Gott munnskol getur styrkt munnhirðuna. Notaðu alkóhóllaust munnskol, því alkóhól getur þurrkað munninn og gert vandann en verri. Munnskol með sinki er mjög áhrifaríkt því það brennisteinssamböndin frá bakteríunum óvirk.
Borðaðu morgunmat – Ef þú sleppir því að borða morgunmat getur þú framlengt andfýluna. Þegar þú tyggur framleiðir þú munnvatn sem hreinsar munninn. Veldu eitthvað sem þarf aðeins að tyggja, til dæmis epli eða hnetur því þetta getur skrúbbað tunguna og tennurnar á meðan þú borðar.