Ef af fastri búsetu verður, mun það hafa ákveðin áhrif á tunglið ef miða má við niðurstöður nýrrar rannsóknar. Í henni kemur fram að það sem fólk mun taka sér fyrir hendur á tunglinu muni verða til þess að tímabundinn og þunnur lofthjúpur myndist.
„Eitt af því sem við höfum miklar áhyggjur af er rykið sem þyrlast upp við rannsóknir og annað. Það gæti verið rafmagnað og gæti myndað það sem kallast rykplasma,“ sagði Rosemary Killen, plánetufræðingur hjá NASA, að sögn Tiempo og bætti við að það geti verið mjög hættulegt fyrir fólk ef það berst niður í lungun.
Það er bandaríska geimferðastofnunin NASA sem hyggur á mannaðar geimferðir til tunglsins og er ætlunin að notast við risastórt geimfar Space X, Starship.
Reiknað er með að við lendinguna muni mikið magn ryks þyrlast upp og gera lofthjúpinn þykkari um hríð.
Killen og samstarfsfólk hennar rannsakaði hvað áhrif bæði lendingin og annað sem geimfararnir munu taka sér fyrir hendur muni hafa á lofthjúpinn og umhverfið á tunglinu. Niðurstaða þeirra er að lendingin, rannsóknir og andardráttur geimfaranna geti breytt lofthjúpnum sem geti síðan valdið vanda fyrir geimfara og búnað á tunglinu og gert okkur erfiðara fyrir að ná þeim vísindalegu markmiðum sem stefnt verður að.