Hörðustu stuðningsmenn verðandi forseta Bandaríkjanna, svokallaðir MAGA-liðar, eru nú bálreiðir út í auðkýfinginn Elon Musk. Musk er hægri hönd Trump þessa dagana en báðir hafa farið mikinn síðustu misseri í að kynda undir andúð á innflytjendum. Hafa þeir talað fyrir því að loka landamærunum, herða útlendingalöggjöf og eins lofað fjöldabrottvísun ólöglegra, og jafnvel löglegra, innflytjenda.
Því ráku MAGA-liðar upp stór augu þegar Musk talaði fyrir því að fá inn fleiri erlenda starfsmenn í tæknigeirann. Hundruð starfsmanna hjá fyrirtækjum Musk eru erlendir ríkisborgarar sem starfa á grundvelli sérstakrar vegabréfsáritunar út af sérfræðiþekkingu sem kallast H1B.
Musk skrifaði á samfélagsmiðil sinn X á miðvikudag að þessir starfsmenn væru grundvöllur nýsköpunar í Bandaríkjunum enda sé mikill skortur á færum bandarískum hugbúnaðarverkfræðingum og tölvunarfræðingum.
Musk skrifaði að ef hæfileikaríkustu tæknistarfsmenn heimsins fá ekki tækifæri til að flytja til Bandaríkjanna þá muni einhver önnur stórþjóð grípa þessa aðila og ná þar með samkeppnisforskoti.
„Þetta snýst í raun um þetta: viljið þið að Bandaríkin SIGRI eða viljið þið að Bandaríkin TAPI? Ef þið þvingið hæfileikaríkasta fólk heimsins til að spila fyrir hitt liðið þá munu Bandaríkin TAPA. Þetta er ekki flóknara en það.“
It comes down to this: do you want America to WIN or do you want America to LOSE.
If you force the world’s best talent to play for the other side, America will LOSE.
End of story.
— Elon Musk (@elonmusk) December 25, 2024
Þeir MAGA-liðar sem eru hvað lengst til hægri og harðast á móti innflytjendum urðu bálreiðir. Margir bentu Musk á að það séu 330 milljónir sem búa í Bandaríkjunum og það hljóti að duga Musk til að setja saman öflugt starfslið. Eins liggi fyrir að með því að ráða erlenda sérfræðinga sé Musk að svipta Bandaríkjamenn störfum. Móðir ein skrifaði til Musk að vinur sonar hennar starfi í dag á gaffallyftara þrátt fyrir að vera afburðargreindur og menntaður verkfræðingur. Hann fái þó ekki vinnu við sitt sérsvið. Aðrir benda Musk á að hann sé mögulega ekki að segja alveg satt. Kosturinn við erlenda starfsmenn sé að þeir séu gjarnan tilbúnir að vinna lengri vinnuviku fyrir lægri laun. Eins sé auðvelt að þvinga þá til hlýðni með því að hóta því að svipta þá vegabréfsáritun. Musk sé því í raun bara að hugsa um sína eigin hagsmuni.
Trump hefur fengið Musk og athafnamanninn Vivek Ramaswarmy til að skera verulega niður í ríkisútgjöldum. Ramaswarmy hefur eins tjáð sig um nauðsyn þess að fá áfram inn erlenda starfskrafta í tæknigeirann og fengið, eins og Musk, skammir í hattinn fyrir vikið. Ramaswarmy gekk þó lengra og sagði að Bandaríkin glími við meðalmennsku á hæsta stigi. Þess vegna neyðist tæknirisar að leita starfsfólks utan landsteinanna.
„Menning sem fagnar lokaballsdrottningunni fremur en ólympíustærðfræðisnillingnum, eða íþróttakappanum frekar en dúxinum, mun ekki framleiða bestu verkfræðingana.“
Ramaswarmy benti á að mikið af afþreyingarefninu sem er framleitt fyrir bandarísk börn fagni meðalmennskunni og kenni börnum að það sé betra að eiga öflugt félagslíf en að skara fram úr í námi. Þetta sé að hvetja börn til að vera venjuleg fremur en einstök. Þau læri að það sé best að falla inn í hópinn og gera eins og hinir. Það sé svo lítil eftirspurn eftir venjulegu starfsfólki á sviðum sem byggja á nýsköpun.
„Forsetakjör Trump markar vonandi upphafið að nýrri gullöld Bandaríkjanna, en það gerist bara ef menningin vaknar til meðvitundar. Menning sem byrjar aftur að forgangsraða árangri fremur en venjulegheitum; yfirburðum fremur en meðalmennsku; gáfnaljósum fremur en hjarðdýrum; elju fremur en leti.“
The reason top tech companies often hire foreign-born & first-generation engineers over “native” Americans isn’t because of an innate American IQ deficit (a lazy & wrong explanation). A key part of it comes down to the c-word: culture. Tough questions demand tough answers & if…
— Vivek Ramaswamy (@VivekGRamaswamy) December 26, 2024
Allt ætlaði svo endanlega um koll að keyra þegar hægriaktívistinn Laura Loomer, einn dyggasti stuðningsmaður Trump, var sett í eins konar skuggabann á samfélagsmiðlinum X fyrir að gagnrýna Musk, sem er líkt og áður segir eigandi miðilsins. Loomer var áður með áskriftaraðgang að X sem veitir notendum ákveðin fríðindi. Áskriftinni hennar var þó sagt upp eftir að hún gagnrýndi Musk.
Hún fer nú mikinn á X þar sem hún furðar sig á því hvað tjáningarfrelsið, sem Musk hafi ætlað sér að vernda, fari fyrir lítið þegar gagnrýnin beinist að honum. Hún skrifar í einni færslu: „Ég hef verið tryggari Trump forseta en nokkur annar. Og mér hefur bara verið refsað fyrir það. Takið eftir þessu MAGA. Svona verður komið fram við ykkur núna þegar tæknirisarnir hafa tekið yfir MAGA-hreyfinguna. Svo virðist sem viðurnefnið Musk forseti sé ekki svo fjarri lagi.“
I have now also been banned from being able to purchase premium.
We are always told to buy premium. But if you criticize immigration you get your premium check taken away and you also get banned from being able to buy Premium.
Pure censorship. MAGA has been silenced. pic.twitter.com/wsDKXE85aL
— Laura Loomer (@LauraLoomer) December 27, 2024
BREAKING:@elonmusk has now also taken away my character limit so I can’t post longer posts.
I paid for premium too. He locked my ability to have premium after taking away my blue check tonight.
So much for free speech. https://t.co/5MZlHJKASd pic.twitter.com/aLnqJOUxRV
— Laura Loomer (@LauraLoomer) December 27, 2024
Loomer og fleiri MAGA-liðar telja að tæknirisarnir hafi nú sýnt sitt rétta andlit. Þeir muni aldrei sætta sig við færri innflytjendur enda eigi þeir allt sitt undir stöðugum vexti og til þess að vaxa þurfi að fá aðflutt vinnuafl þar sem Bandaríkjamönnum er ekki að fjölga með náttúrulegum hætti.