fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Pressan

Þetta eru þeir 10 sem eru efstir á lista FBI yfir eftirlýsta glæpamenn

Pressan
Fimmtudaginn 26. desember 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef það er einn listi í heiminum sem þú vilt ekki vera á er það topp 10 listi FBI yfir eftirlýsta glæpamenn. Bandaríska alríkislögreglan heldur úti lista yfir þá 10 einstaklinga sem hvað mest áhersla er lögð á að finna. Svo mikil er áherslan að háar fjárhæðir eru lagðar til höfuðs þeim. Hér má sjá lista FBI yfir óþokkana 10 sem skipa efstu sætin yfir eftirlýsta glæpamenn.

Alejandro Rosales Castillo.

Alejandro Castillo
Verðlaunafé: 250 þúsund dollarar

Castillo hefur verið eftirlýstur af lögreglu frá árinu 2016 en þann 9. ágúst það ár skaut hann 23 ára fyrrverandi kærustu sína, Truc Quan “Sandy” Ly Le, til bana og lagði á flótta. Sandy hafði lánað honum pening meðan þau voru saman en ekki borgað henni til baka.

Hann hafði samband við hana þennan dag og bað hana að hitta sig svo hann gæti endurgreitt henni. Ný kærasta Castillo, hin 19 ára gamla, Ahmia Feaster, sótti hann og hittu þau Sandy á bílastæði við verslun QuikTrip í borginni Charlotte.

Í stað þess að greiða henni skuldina neyddi Castillo hana til að tæma bankareikninginn sinn áður en hann fór með hana út í skóg og skaut hana til bana. Síðast var vitað um ferðir hans við landamæri Mexíkó. Ahmia gaf sig fram við lögreglu í október 2016 og sagði við lögreglu að hún og Castillo hefðu hafist við í Mexíkó á heimili frændfólks Castillo. Hann hefði látið sig hverfa í millitíðinni sem varð til þess að hún ákvað að gefa sig fram. Ekkert hefur spurst til Castillo í rúm sjö ár.

Donald Eugene Fields II

Donald Eugene Fields II
Verðlaunafé: 250 þúsund dollarar

Donald þessi þykir ekki merkilegur pappír en hann er eftirlýstur fyrir mansal á börnum í þeim tilgangi að beita þau kynferðisofbeldi.

Hann er sagður hafa verið þátttakandi í mansalshring á börnum á árunum 2013 til 2017 þar sem hann útvegaði meðal annars félaga sínum, Theodore John Sartori, aðgang að 14 ára stúlku sem Sartori beitti kynferðisofbeldi. Í skiptum fékk hann peninga, bifreið, mótorhjól og utanlandsferðir. Hann er grunaður um fleiri sambærileg brot en Sartori játaði sök fyrir dómi. Þegar Donald átti að koma fyrir dóm þann 3. mars 2022 virðist hann hafa látið sig hverfa því ekkert hefur spurst til hans síðan þá.

Vitel ‘Homme Innocent.

Vitel’Homme Innocent
Verðlaunafé: 2 milljónir dollara

Það verður seint sagt að Innocent beri nafn með rentu en hann er leiðtogi alræmdrar glæpaklíku á Haítí, Kraze Baryé. Talið er að klíkan hafi staðið að mannráni á sautján trúboðum frá Ohio haustið 2021 en þeim var haldið föngnum í nokkra mánuði og lausnargjalds krafist. Þá er klíkan sökuð um fleiri mannrán, meðal annars á tveimur bandarískum ríkisborgurum en annar þeirra var myrtur í haldi klíkunnar.

Vilver Villegas-Palomino.

Wilver Villegas-Palomino
Verðlaunafé: 5 milljónir dollara

Wilver þessi er 43 ára og var leiðtogi Frelsishers Kólumbíu (NLA) sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í ríkjum eins og Kólumbíu, Bandaríkjunum, Kanada auk Evrópusambandinu. Hann er auk þess talinn hafa staðið á bak við innflutning á miklu magni af kókaíni frá Kólumbíu til Bandaríkjanna og var ágóðinn aftur notaður til að fjármagna starfsemi NLA.

Ruja Ignatova.

Ruja Ignatova
Verðlaunafé: 5 milljónir dollara

Ruja Ignatova er eina konan á listanum en fjallað hefur verið um mál hennar áður hér á landi, ekki síst í ljósi þess að hún var góð vinkona Ásdísar Ránar Gunnarsdóttur, fyrirsætu og fyrrverandi forsetaframbjóðanda.

Ignatova er fædd í Búlgaríu en hún stofnaði rafmyntafyrirtækið OneCoin sem var í raun svikamylla frá A-Ö. Fjárfestum var boðið að fjárfesta í rafmyntinni en staðreyndin var sú að OneCoin var ekki til í raun og veru, enda ekki bundin við svokallaða bálkakeðju sem er forsenda þeirrar tækni sem rafmyntir á borð við Bitcoin byggja á. Talið er að Ignatova hafi náð að svíkja út milljarða með svikunum.

Ekkert hefur spurst til Ignatovu frá því í október 2017 og hefur þeim getgátum verið varpað fram að hún hafi verið myrt af hátt settum aðilum innan búlgörsku mafíunnar. Þær vangaveltur breyta því þó ekki að Ignatova er enn á lista FBI.

Arnaldo Jimenez.

Arnaldo Jimenez
Verðlaunafé: 250 þúsund dollarar

Arnaldo Jimenez, fæddur 1982, hefur verið eftirlýstur frá árinu 2012 en í maí það ár er hann talinn hafa myrt eiginkonu sína, Estrellu Carrera, aðeins sólarhring eftir að þau gengu í hjónaband.

Estrella fannst látin í baðkarinu í íbúð sinni í Burbank í Illinois með áverka eftir eggvopn. Jimenez og Estrella áttu saman eitt barn en Estrella átti að auki tvö börn úr fyrra sambandi. Þau borðuðu með ættingjum og vinum daginn sem þau giftu sig og fóru svo á næturklúbb þar sem þau voru til fjögur um nótt. Talið er að parið hafi rifist heiftarlega í Maserati-bifreið Jimenez sem endaði þannig að hann stakk hana til bana í bílnum áður en hann kom líkinu fyrir í íbúð hennar og lagði á flótta.

Rannsókn FBI leiddi í ljós að dagana eftir morðið notaði Jimenez farsíma sinn í Tennessee, Arkansas og Texas og loks í Hidalgo í Mexíkó. Eftir það virðist hann hafa horfið af yfirborði jarðar því ekkert hefur spurst til hans. FBI telur þó að hann haldi sig enn í Mexíkó.

Om,ar Alexander Cardenas.

Omar Alexander Cardenas
Verðlaunafé: 250 þúsund dollarar

Cardenas er fæddur árið 1995 og grunaður meðlimur í glæpasamtökunum Pierce Street Gang í Los Angeles. Hann er eftirlýstur fyrir morð á 46 ára karlmanni, Jabali Dumas, í ágúst 2019 fyrir utan verslunarmiðstöð í Sylmar í Kaliforníu, skammt frá Los Angeles.

Cardenas sást flýja af vettvangi eftir morðið en síðan þá hefur ekkert til hans spurst. Talið er að hann hafi flúið til Mexíkó eða haldi sig enn í Kaliforníu þar sem hann á bæði aðstandendur og vini.

Yulan Adonay Archaga Carias.

Yulan Adonay Archaga Carias
Verðlaunafé: 100 þúsund dollarar

Yulan fæddist í San Pedro Sula í Hondúras árið 1982 en hann er talinn vera leiðtogi MS-13 glæpagengisins í Hondúras sem er eitt það alræmdasta í heimi. Hann er meðal annars eftirlýstur fyrir skipulagða glæpastarfsemi, fíkniefnasmygl og vopnalagabrot. Talið er að hann hafi haft milligöngu um að útvega meðlimum MS-13 í Bandaríkjunum skotvopn og fíkniefni til að selja á götum Bandaríkjanna. Þá er hann grunaður um að hafa fyrirskipað fjölmörg morð.

Yulan var handtekinn í Hondúras árið 2015 eftir að hafa hlotið dóm fyrir peningaþvætti. Þegar verið að flytja hann í dómsal árið 2020 í aðskildu máli frelsuðu þungvopnaðir liðsmenn MS-13 hann. Ekkert hefur spurst til hans síðan þá.

Alexis Flores.

Alexis Flores
Verðlaunafé: 250 þúsund dollarar

Flores þessi er fæddur í Hondúras árið 1975 en hann er eftirlýstur fyrir að hafa rænt, nauðgað og drepið hina fimm ára gömlu Iriana DeJesus í Philadelphiu í Bandaríkjunum árið 2000. Lögregla beindi ekki spjótum sínum að Flores í tengslum við morðið fyrr en árið 2006, en það gerðist eftir að samsvörun fannst í DNA-gagnagrunni lögreglu.

Í millitíðinni hafði Flores hins vegar verið vísað frá Bandaríkjunum til Hondúras þar sem hann var ólöglegur í landinu. Það er alls óvíst hvar hann er niðurkominn í dag en mestar líkur eru á að hann haldi til einhvers staðar í Hondúras.

Bhadreshkumar Chetanbhai Patel.

Bhadreshkumar Chetanbhai Patel
Verðlaunafé:
250 þúsund dollarar

Patel er eini fulltrúi fjölmennasta lands heims á lista FBI en hann er fæddur í Gujarat á Indlandi árið 1990. Hann er eftirlýstur fyrir hrottafengið morð á eiginkonu sinni, Palak Patel, í apríl 2015.

Hjónin voru ekki bandarískir ríkisborgarar en voru þó við störf í Dunkin‘ Donuts-kleinuhringjaverslun í borginni Hanover í Maryland, en umrædd verslun var rekin af ættingjum Patel sem hjónin voru að heimsækja.

Á eftirlitsmyndavélum úr versluninni sjást hjónin við störf áður en þau bregða sér á bak við. Stuttu síðar sést Patel koma einn til baka, slökkva á bakaraofni áður en hann yfirgefur verslunina. Lík Palak fannst síðar sama kvöld en hún hafði verið barin og stungin til bana.

Talið er að hjónin hafi rifist heiftarlega þetta kvöld og ágreiningsefnið hafi verið að Palak vildi fara aftur til Indlands en Patel dvelja áfram í Bandaríkjunum.

Patel virðist hafa farið aftur í íbúð sem þau hjónin höfðu afnot af og náð í ýmsa persónulega muni áður en hann tók leigubíl á hótel skammt frá Newark-flugvellinum. Hann pantaði sér gistingu á hótelinu og borgaði með reiðufé áður en hann tékkaði sig út morguninn eftir. Síðast er vitað um ferðir hans daginn eftir þegar hann sást á Newark Penn-lestarstöðinni í New Jersey. Síðan þá hefur ekkert til hans spurst.

Yfirvöld telja að hann hafi annað hvort flúið til Indlands eða dvelji hjá ættingjum sínum í Bandaríkjunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Unglingsstúlka reiddist keppinautnum og eitraði fyrir geit

Unglingsstúlka reiddist keppinautnum og eitraði fyrir geit
Pressan
Í gær

10 hlutir sem farþegar gera sem pirra flugþjóna – „Hættu að snerta okkur. Ekki pota í mig eða banka í mig“

10 hlutir sem farþegar gera sem pirra flugþjóna – „Hættu að snerta okkur. Ekki pota í mig eða banka í mig“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Elítan í Rússlandi komin með nóg – „Við reiknuðum með að stríðið tæki enda“

Elítan í Rússlandi komin með nóg – „Við reiknuðum með að stríðið tæki enda“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Meingallaðir verðlaunapeningar frá ólympíuleikunum í Frakklandi

Meingallaðir verðlaunapeningar frá ólympíuleikunum í Frakklandi