Báðir skipstjórnendurnir þeyttu flautur skipanna og reyndu að víkja undan svo skipin rækjust ekki á hvort annað, en kinnungar þeirra rákust samt sem áður saman. Þetta var ekki svo slæmur árekstur að skipin biðu stóran skaða af. Vandinn var hins vegar að SS Mont Blanc var fljótandi sprengja og því var áreksturinn það versta sem gat gerst. SS Imo hafði í raun rekist á 3.000 tonna fljótandi sprengju. Um borð í SS Mont Blanc voru ýmis hergögn sem áttu að fara til Evrópu. Auk þess voru 2.500 tonn af dýnamíti og mjög sprengifimri sýru um borð. Dekk skipsins var þakið bensíntunnum.
Allt þetta olli stærstu sprengingu af mannavöldum, áður en kjarnorkuöld hófst, að sögn sérfræðinga. Sprengingin gjöreyddi hafnarsvæðinu og jafnaði nærri 2,5 ferkílómetra svæði við höfnina við jörðu. Rúmlega 2.000 manns létust og um 5.000 særðust. Þetta voru tæplega 12 prósent af íbúafjölda Halifax. Massífir skipsskrokkarnir tættust í smá hluta sem dreifðust um nágrennið og í margra kílómetra fjarlægð frá höfninni. Hálfs tonns hluti af akkerinu þeyttist um þriggja kílómetra leið og er enn á þeim stað þar sem hann lenti, til minningar um þau ógnaröfl sem þarna voru að verki. Öflugri sprenging varð ekki hér jörðinni fyrr en Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima 1945.
Það má kannski líkja ástandinu í borginni eftir sprenginguna við það sem var í New York í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Blóðugt fólk ráfaði um götur, byggingar höfðu jafnast við jörðu og brak lá yfir öllu.
Mikill uppgangstími hafði verið í Halifax en íbúum borgarinnar hafði fjölgað mikið vegna annríkis í tengslum við fyrri heimsstyrjöldina. Höfnin gegndi mikilvægu hlutverki hvað varðaði hergagnaflutninga og var heimahöfn kanadísku og bresku flotanna. Hún var einnig meiriháttar birgðastöð herjanna og þar var tekið við særðum hermönnum frá evrópsku vígvöllunum.
Mikill mannfjöldi var á hafnarsvæðinu þegar sprengingin varð og skar hún sig í gegnum vetrarkuldann. SS Mont Blanc hafði tekið farm sinn í Brooklyn í Bandaríkjunum og var skipið komið til Halifax til að slást í för með fleiri skipum í skipalest til Evrópu. SS Imo var á leið til New York til að sækja neyðarbirgðir sem átti að flytja til Belgíu. Skipstjórar og stýrimenn beggja voru vanir siglingum og hafnsögumenn voru um borð í báðum skipum.
Mikil skipaumferð var í höfninni þennan dag og SS Imo hafði nýlokið við að sveigja fram hjá dráttarbáti og bandarísku herskipi þegar áreksturinn varð en skipið var þá þvert á siglingaleið SS Mont Blanc.
Báðir skipstjórarnir reyndu að forða árekstri skipanna og í smá stund leit út fyrir að þeim myndi takast það en á síðustu stundu ákvað skipstjóri SS Imo að bakka. Þá sveigði skipið og kinnungur þess lenti á SS Mont Blanc. Engar sérstakar merkingar voru á SS Mont Blanc um farm þess. Fáir vissu hvað var um borð nema áhöfnin og örfáir hafnarstarfsmenn. Um leið og bensíntunnurnar opnuðust og eldur komst í þær þusti áhöfnin að björgunarbátunum. Menn réru eins og þeir gátu í átt til lands og þegar á land var komið tóku þeir til fótanna og öskruðu aðvörunarorð til þeirra sem þeir mættu, en á frönsku. Fáir íbúar Halifax á þessum tíma töluðu frönsku. Sífellt fleiri hlupu niður að höfninni til að sjá eldinn í stað þess að hlaupa á brott enda vissi fólk ekki um þá miklu hættu sem var á ferðum.
Stjórnlaust rak SS Mont Blanc að bryggjukantinum og sendi frá sér svartan reyk. Slökkviliðsmenn þustu að skipinu. Áhöfnin á SS Imo fylgdist með þessu úr sködduðu skipi sínu. Alls staðar var fólk að fylgjast með.
Klukkan 9.35 gerðist það síðan. SS Mont Blanc sprakk í loft upp. Enn þann dag í dag er klukkan í ráðhústurninum föst á 09.35 og hefur verið í rúm 100 ár. Nákvæm tímasetning sprengingarinnar fékkst með jarðskjálftamælingum.
Rúmlega 1.600 byggingar eyðilögðust samstundis og 12.000 til viðbótar skemmdust. Tugir þúsunda rúða brotnuðu við höggbylgjuna og margir, sem höfðu staðið innan við þær og fylgst með, slösuðust illa, 37 urðu blindir og 250 misstu sjón á öðru auganu.
Mörg hundruð eldar kviknuðu þegar hús hrundu til grunna í kringum eldstæði. Eldurinn barst í timbrið. Fljótlega ómuðu sársauka- og hryllingsöskur nauðstaddra um alla borg. Margir létust af völdum brunasára.
Enn þann dag í dag er fólk að grafa málm úr SS Mont Blanc upp úr görðum sínum. Sprengingin var svo öflug að fallbyssa úr SS Mont Blanc flaug um fjögurra kílómetra leið.
Það var kannski ákveðin kaldhæðni í því að öll áhöfn SS Mont Blanc lifði af nema einn sem varð fyrir málmstykki úr skipinu. Allir sem voru í brú SS Imo létust en tveir kafarar lifðu af því þeir voru neðansjávar.
Á næstu klukkustundum streymdu mörg þúsund hermenn, sjómenn, skógarhöggsmenn og aðrir inn á hamfarasvæðið til aðstoðar. Hjúkrunarkonur hersins hófu strax störf en þær voru vanar að takast á við mikinn fjölda særðra í einu. Skurðlæknar störfuðu án hvíldar.
Aðstoð barst frá bandarískum og breskum herskipum innan skamms. Frá Massachusetts í Bandaríkjunum var send járnbrautarlest með læknum, hjúkrunarfræðingum og birgðum. Enn þann dag í dag gefa yfirvöld í Nova Scotia, þar sem Halifax er, Boston risastórt jólatré til að sýna þakklæti Kanadamanna.