fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Pressan

Nokkrir sögulegir atburðir sem gerðust um jól

Pressan
Miðvikudaginn 25. desember 2024 16:00

Vopnahlé Dátar á vesturvígstöðvunum spiluðu knattspyrnu jólin 1914.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jólin eru tími hefða, rólegheita, fjölskyldunnar og auðvitað gjafa (að margra mati) en jólin eru svo sem að vissu leyti eins og aðrir dagar því heimurinn heldur áfram að vera til og hlutir gerast um allan heim. Þá er það ekki svo að meirihluti mannkyns haldi jólin hátíðleg og hjá mörgum eru þau eins og hver annar dagur. Hér verða nefndir til sögunnar nokkrir atburðir sem hafa gerst um jól og ratað í sögubækurnar. Eflaust hefur fólk misjafnar skoðanir á hversu merkilegir þessir atburðir eru í sögulegu samhengi en þeir áttu engu að síður sér stað.

Á jóladag 1990 varð ákveðin bylting því þá var internetið prufukeyrt í fyrsta sinn þegar kveikt var á fyrsta netþjóninum, inco.cern.ch. Þetta var auðvitað stór stund og líklegast hefur enginn séð fyrir hvaða afleiðingar þetta átti eftir að hafa í framtíðinni og eflaust höfum við ekki enn upplifað allt það sem internetið getur haft í för með sér. Það er kannski við hæfi að það hafi verið tækninördar hjá CERN (European Organization for Nuclear Research) í Sviss sem komu að þessari fyrstu prufukeyrslu og þróun netsins að Tim Bernes-Lee ógleymdum en hann er talinn faðir veraldarvefjarins.

George Washington
Kom málaliðum á óvart á jólum.

Að kveldi jóladags 1776 fór George Washington, þá hershöfðingi og síðar fyrsti forseti Bandaríkjanna, yfir Delaware á með herlið sitt. Hann vildi koma málaliðum á vegum Breta á óvart í miðjum jólahátíðarhöldum þeirra og það tókst. Washington og hans menn gjörsigruðu málaliðana og náðu miklu af vopnum á sitt vald og tóku marga fanga. Þessi bardagi er eitthvað sem á sér fastan stað í bandarískum sögubókum.

Einn undarlegasti atburður fyrri heimsstyrjaldarinnar átti sér stað á jóladag 1914. Breskar og þýskar hersveitir höfðu lengi barist á banaspjótum á vesturvígstöðvunum en í kringum jólin var samið um vopnahlé. Þá breyttist allt og hermenn, sem höfðu skömmu áður reynt hvað þeir gátu til að drepa þá sem voru hinum megin við víglínuna, færðu þeim gjafir, sungu jólasöngva með þeim og spiluðu jafnvel fótbolta. Það má því kannski segja að sannur jólaandi hafi verið yfir vígstöðvunum.

Á aðfangadag 1979 hófst innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Þá var mikið af hermönnum og hertólum flutt til landsins. Tímasetningin var engin tilviljun því Sovétmenn og bandamenn þeirra vissu sem var að á Vesturlöndum var fólk upptekið af jólahaldi og því seinkaði það viðbrögðum Vesturlanda við innrásinni.

Isaac Newton
Einn fremsti vísindamaður sögunnar fæddist á jóladag.

Breski vísindamaðurinn Sir Isaac Newton fæddist á jóladag 1642. Hann var fyrstu manna til að skilja hvað þyngdaraflið er. Hann var einnig frumkvöðull í stærðfræði og ýmsu öðru. Honum verður seint fullþakkað framlag hans til vísindanna og því má kannski segja að hann hafi verið sannkölluð jólagjöf.

Á jóladag 1977 lést Charlie Chaplin, einn frægasti leikari sögunnar. Hann var 88 ára. Chaplin var frumkvöðull á kvikmyndasviðinu. Hann var fæddur grínisti sem öðlaðist heimsfrægð á upphafsárum kvikmyndanna.

Apollo 8 komst á braut um tunglið á jóladagskvöld 1968. Geimfarið var fyrsta geimfarið sem komst af braut um jörðina og á braut um tunglið. Af þessu tilefni voru geimfararnir með sérstaka útsendingu og sýndu myndir af jörðinni og tunglinu og lásu upp úr sköpunarsögunni.

Mikhail Gorbachev
Sagði af sér á jólunum 1991.

Á jóladag 1991 sagði Mikhail Gorbachev af sér sem leiðtogi Sovétríkjanna. Hann var aðalhöfundur Glasnost-stefnunnar sem opnaði Sovétríkin og Austurblokkina upp á gátt. Hann kemst eflaust á stall með merkustu áhrifavöldum síðustu aldar.

Á jóladag 1868 náðaði Andrew Johnson Bandaríkjaforseti alla hermenn Suðurríkjanna sem voru í haldi Norðurríkjamanna. Þrælastríðið var þá afstaðið en enn voru miklar deilur um hvað ætti að gera við Suðurríkin og hermenn þess. Stríðið var blóðugt og mannskætt en mörg hundruð þúsund óbreyttir borgarar og hermenn létu lífið í því. Andrew Johnson tók við forsetaembættinu eftir að Abraham Lincoln var myrtur og ákvað hann að náða flesta þá hermenn Suðurríkjanna sem sóttu um náðun. Á jóladag 1868 bætti hann um betur og náðaði alla hermenn Suðurríkjanna og er sú ákvörðun talin hafa verið mikilvægt skref til sátta hjá þessari stríðshrjáðu og margklofnu þjóð.

Á jóladag árið 800 krýndi Leo III. páfi Karlamagnús keisara Rómaveldis við hátíðlega athöfn í St. Péturskirkjunni í Róm. Þar með varð Karlamagnús leiðtogi stórs hluta Evrópu. Hann hefur oft verið nefndur „Faðir Evrópu“. Hann var keisari í 13 ár og laga- og menntunarumbætur hans lögðu grunninn að menningarlegri vakningu og sameinaði stóra hluta Evrópu í fyrsta sinn síðan á tímum rómverska heimsveldisins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 19 klukkutímum

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?
Pressan
Í gær

Martröð á jólum sem endaði með björgunaraðgerð í anda hasarmynda

Martröð á jólum sem endaði með björgunaraðgerð í anda hasarmynda
Pressan
Fyrir 2 dögum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland
Pressan
Fyrir 2 dögum

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Situr þú of mikið? Þá ættirðu kannski að fá þér einn bolla í viðbót

Situr þú of mikið? Þá ættirðu kannski að fá þér einn bolla í viðbót