Fólk, sem hefur náð miklum árangri í lífinu, til dæmis Bill Gates, Elon Musk og Mark Zuckerberg, hefur vel útfærða morgunrútínu sem gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að afköstum þeirra og orku.
Með því að gera smávegis breytingar á morgunrútínunni þinni, breytingar sem vísindarannsóknir staðfesta að séu góðar, getur þú komið þér upp rútínu sem veitir þér meiri orku og betri byrjun á deginum.
Byrjaðu daginn með náttúrulegri birtu – rannsóknir hafa sýnt að það að komast í tæri við náttúrulega birtu á fyrstu 30 mínútunum, eftir að við vöknum, getur komið reglu á dægurrytmann og aukið orku. Dragðu frá eða farðu út í smástund. Meira að segja á skýjuðum dögum finnur þú mun á þér.
Drekktu eitt glas af vatni – eftir 6-8 klukkustunda svefn er líkaminn vökvaþurfi. Stórt vatnsglas getur komið jafnvægi á vökvabúskapinn og hjálpað þér við að finnast þú frískari og vakandi. Þetta er einföld en áhrifarík byrjun á deginum.
Hreyfðu þig í 10 mínútur – hreyfing að morgni til getur komið blóðrásinni í gang og losað um endorfín sem bæta skapið. Þetta geta verið léttar teygjuæfingar, jóga eða stuttur göngutúr.
Prótínríkur morgunmatur – góður og prótínríkur morgunmatur getur komið jafnvægi á blóðsykurinn og fært þér orku sem endist. Egg, grísk jógúrt, hnetur eða haframjög eru góðir kostir.
Ekki opna símann – ef þú byrjar daginn á að skoða samfélagsmiðla eða tölvupóst, þá getur það valdið stressi og gert að verkum að þú ert ekki einbeitt(ur) í upphafi dags. Notaðu tímann frekar í að skipuleggja daginn eða hugleiðslu.