Ryan og Heather bjuggu í lítilli leiguíbúð í borginni sem þau deildu með vinkonu sinni, Aliciu. Þó íbúðin væri ekki stór fór ágætlega um þau og undu þau hag sínum ágætlega. Ryan var tiltölulega nýbúinn að klára menntaskóla á meðan Heather var að byrja í háskólanámi. Framtíðin virtist brosa við þeim í góða veðrinu í Phoenix þar sem er nær alltaf sumar.
Síðdegis þann 25. desember 2006 voru þau ein heima í íbúð sinni þegar dyrabjöllunni var hringt. Ryan fór til dyra og sá að fyrir utan stóðu tveir menn, Ritchie Carver sem var gamall herbergisfélagi Ryans, og faðir hans, Larry Carver.
Ryan var fljótur að átta sig á því að feðgarnir voru ekki komnir í neina kurteisisheimsókn þar sem þeir voru vopnaðir og ógnandi. Hann reyndi að loka hurðinni en mátti síns lítils og voru Carver-feðgarnir fljótir að rífa hurðina upp og fyrr en varði hafði Ryan verið skotinn í höfuðið, vinstra augað nánar til tekið, með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar.
Árásarmennirnir héldu svo lengra inn í íbúðina, fundu þar Heather og skutu hana til bana. Feðgarnir töldu að Ryan væri látinn en áður en þeir höfðu sig á brott létu þeir greipar sópa um íbúðina og stálu ýmsu lauslegu, þar á meðal gítar og raftækjum.
Ryan var á leið heim til foreldra sinna til að fagna jólunum þennan örlagaríka dag, en þegar hann skilaði sér ekki í matinn byrjuðu þau að hafa áhyggjur af honum. Hann svaraði ekki í símann og þegar þau fóru heim til Ryans og Heather kom enginn til dyra. Faðir hans hafði í kjölfarið samband við lögreglu sem kom á staðinn og tókst að komast inn í íbúðina. Þar fundu lögreglumenn Ryan, illa áttaðan og blóðugan en þó á fótum, og í sófanum lá Heather örend með skotsár á líkamanum.
Lögregla reyndi að fá upp úr Ryan hvað hafði gerst en hann gat litlu svarað og sagðist lítið sem ekkert muna. Þetta þótti lögreglu grunsamlegt og fór svo að hann var handtekinn og farið með hann á lögreglustöð, beint í yfirheyrsluherbergi þar sem hann fékk að dúsa og svara ágengum spurningum lögreglumanna tímunum saman. Þetta gerðist þó svo að Ryan væri augljóslega með alvarlega áverka á vinstra auganu og virðist lögreglumönnum ekki hafa dottið í hug að hann þyrfti á læknisaðstoð að halda. Virðist eina markmið þeirra hafa verið að negla hann fyrir morðið á kærustu sinni.
Yfirheyrslan var tekin upp á myndband og vakti birting hennar á sínum tíma gríðarlega athygli. Á upptökunni sést að Ryan var augljóslega mjög ringlaður og átti í stökustu vandræðum með að svara einföldum spurningum rannsóknarlögreglumannsins Pauls Daltons sem sá um yfirheyrsluna. Það er kannski ekki skrýtið að Ryan hafi verið ringlaður enda var hann með byssukúlu djúpt inni í höfðinu sem hafði valdið honum heilaskaða.
Í yfirheyrslunni gat hann þó bent á sinn gamla félaga, Ritchie Carver, og föður hans sem mennina sem réðust á hann og Heather. Sex tímar liðu frá því að Ryan var handtekinn og þar til honum var komið undir læknishendur og er óhætt að segja að læknar hafi verið undrandi á því að hann væri á lífi.
Ryan dvaldi á sjúkrahúsi í 35 daga en skotsárið hafði valdið honum óafturkræfu tjóni og skemmdust meðal annars mikilvægar taugar í höfði hans auk þess sem vinstra auga hans eyðilagðist. Eftir skotárásina fékk hann reglulega flogaköst og þann 20. janúar 2016 dró eitt þessara kasta hann til dauða. Í kasti sem hann fékk datt hann illa og rak höfuðið í með þeim afleiðingum að skurður opnaðist og honum blæddi út. Ryan var aðeins 27 ára þegar hann lést.
Eftir að Ryan var kominn á sjúkrahús eftir árásina handtók lögregla feðgana Ritchie og Larry. Ritchie var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn árið 2013 og Larry var sama ár einnig dæmdur í lífstíðarfangelsi.