fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Pressan

Sinn er siðurinn í hverju landi – Gufubað og köngulær

Pressan
Þriðjudaginn 24. desember 2024 16:00

Sauna Ómissandi hluti af eistnesku jólunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á flestum heimilum eru ákveðnir jólasiðir og jólavenjur sem eru hafðar í heiðri um jólin. Það sama gildir um ríki heims, að minnsta kosti þar sem jólum er fagnað, þar eru ákveðnir siðir og venjur sem fólki í öðrum ríkjum þykja jafnvel undarlegar. Eflaust finnst mörgum útlendingum í hæsta lagi undarlegt að íslensku jólasveinarnir séu þrettán talsins og komi einn af öðrum til byggða í aðdraganda jólanna og gefi börnunum eitthvað gott í skóinn, nema þeim óþekku sem fá bara kartöflu. Ekki eykur það á undarlegheitin að móðir þeirra er tröllskessa sem borðar fólk. Síðan er það auðvitað jólakötturinn sem gæðir sér á börnum. Það er kannski engin furða að útlendingum þyki þetta eiginlega bara hræðilegt. Síðan er það skötuátið sem tengist jólahátíðinni þrátt fyrir að það fari fram á Þorláksmessu. Það er auðvitað vel skiljanlegt að útlendinga hrylli við því, sérstaklega ef þeir hafa orðið þeirrar ógæfu aðnjótandi að finna óþefinn sem leggur upp úr pottum landsmanna á Þorláksmessu.

Í Noregi tengjast nornir og galdrar jólum en þetta er ævaforn siður og trú. Enn er sá siður hafður í heiðri á mörgum heimilum að fela alla kústa því eins og kunnugt er geta nornir flogið á slíkum heimilistækjum og því betra að fela þá.

Í Danmörku er það nánast siður á hverju heimili að dansað er í kringum jólatré á aðfangadagskvöld. Danir bjóða síðan eldhættunni heim því stór hluti þjóðarinnar kýs að nota kerti, ekki jólaseríu, til að lýsa jólatrén upp inni í stofu. Danskar stórfjölskyldur safnast oft saman á aðfangadagskvöld og ekki er óalgengt að tengdafjölskyldur fylgi með. Það dregur þó úr hátíðleika jólanna að margra mati að áfengisneysla Dana er oft og tíðum mikil um hátíðarnar og jólin geta því eflaust verið erfið fyrir mörg börn.

Í Svíþjóð tíðkast víða að vera með hlaðborð á aðfangadag og inniheldur það oft jólaskinku, svínapylsur, egg, síld, heimagerða lifrarkæfu, kartöflur og auðvitað hinn víðfræga lútfisk en það er þurrkaður ufsi, langa eða þorskur sem er látinn liggja í lút áður en hann er soðinn. Það er þó aðeins mismunandi á milli landshluta hvaða matur er á boðstólum á aðfangadag. Svo má auðvitað ekki gleyma IKEA-jólageitinni sem setur sannarlega svip sinn á landið í aðdraganda jólanna, svo lengi sem skemmdarvörgum tekst ekki að kveikja í henni.

Úkraínsk hefð
Kónguló falin í jólatré.

Í Japan er það KFC sem er aðalnúmerið á aðfangadagskvöld. Í þessu heimalandi sushi og Kobe-nautakjöts er það djúpsteiktur kjúklingur frá KFC sem heillar marga á aðfangadagskvöld. Þessi siður er ekki ýkja gamall en hann ruddi sér til rúms á áttunda áratug síðustu aldar. Boðið er upp á sérstakar jólamáltíðir á KFC sem nefnast Kentucky fyrir jólin og eru þær mjög vel úti látnar og fylgir jólakaka og kampavín með.

Eistar vilja gjarnan eyða aðfangadagskvöldi í gufubaði en mörgum þykir jólin ekki vera góð nema þeir geti setið naktir í gufubaði með ættingjum og vinum, svolgrað í sig vodka, slakað á og notið samvista við ættingja og vini. Eflaust er þetta eitthvað sem margir undrast en þetta er gamall siður þar í landi en þar er mikil gufubaðsmenning.

Í Úkraínu tíðkast að fela könguló, jólakóngulóna, í jólatrénu. Hún er falin vel og vandlega í greinum þess og það er síðan mikið kapp hjá fólki að finna hana en það þykir boða mikla gæfu fyrir viðkomandi.

Til að byrja með átti jólasveinninn ekki sleða, það er að segja útlenski jólasveinninn, þeir íslensku hafa enga þörf fyrir slík tæki, en 1819 kom jólasveinn fljúgandi í sleða fram á sjónarsviðið.

KFC
Jólahefð að borða djúpsteiktan kjúkling í Japan.

Frá sautjándu öld og fram á þá nítjándu var meðalhitinn í heiminum töluvert lægri en venjulega en þá stóð „lítil ísöld“ yfir. Hinn heimsþekkti rithöfundur Charles Dickens ólst upp á meðan þessi litla ísöld réð ríkjum og fyrstu átta jólin hans voru hvít. Þetta hafði áhrif á skrif hans síðar á lífsleiðinni og vilja margir meina að hann hafi skapað væntingar fólks um að fá hvít jól.

Um jólin 2010 gripu yfirvöld í Kólumbíu til þess ráðs að skreyta tré í frumskógum landsins með jólaseríum. Það kviknaði á þeim þegar skæruliðar, hryðjuverkamenn, gengu framhjá þeim og um leið kviknaði á áróðursskiltum þar sem þeir voru hvattir til að gefast upp. Þetta bar árangur því 331 skæruliði gaf sig fram og gerðist nýtur þjóðfélagsþegn.

Elsta gervijólatréð sem vitað er um kom fram á síðari hluta nítjándu aldar. Það var Addis Brush Company sem framleiddi það í vélum sem framleiddu klósettbursta. Markmiðið var að búa til tré sem var ekki eins eldfimt og þyldi þyngri skreytingar en lifandi jólatré. Fyrir þá umhverfisvænu er rétt að taka fram að það þarf að nota gervijólatré, stundum nefnd fjölær jólatré, tuttugu sinnum til að þau séu orðin umhverfisvænni en þau vistspor sem notkun á 20 grenitrjám skilja eftir sig.

Í upphafi voru jólatré skreytt með ávöxtum, aðallega eplum, en síðar meir fór fólk að nota kerti og síðan jólaseríur.

Frelsisstyttan
Jólagjöf frá Frökkum.

Leikföng eru vinsælar jólagjafir og líklegast eru LEGO-kubbar einna vinsælastir. Í aðdraganda jólanna seljast að jafnaði 28 LEGO-kassar á sekúndu hverri.

Samkvæmt breskum lögum er refsivert að fara ekki í kirkju á jóladag. Einnig kveða þau á um að ekki megi fara akandi til kirkju á þessum degi. Það þarf varla að taka fram að þessum lögum er ekki framfylgt.

Stærsta jólagjöfin sem Bandaríkin hafa fengið er líklegast Frelsisstyttan en hana fengu Bandaríkin að gjöf frá Frökkum á jóladag 1886. Hún vegur 225 tonn og því er líklegast leitun að jafn stórri og þungri jólagjöf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Pabbinn vildi sýna syninum hvað fátækt er – Orð drengsins komu honum algjörlega í opna skjöldu

Pabbinn vildi sýna syninum hvað fátækt er – Orð drengsins komu honum algjörlega í opna skjöldu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Situr þú of mikið? Þá ættirðu kannski að fá þér einn bolla í viðbót

Situr þú of mikið? Þá ættirðu kannski að fá þér einn bolla í viðbót
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hér átti merkur atburður sér kannski stað fyrir 1,5 milljónum ára

Hér átti merkur atburður sér kannski stað fyrir 1,5 milljónum ára
Pressan
Fyrir 3 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Myndbirting Madonnu vekur reiði – „Klikkað virðingarleysi“

Myndbirting Madonnu vekur reiði – „Klikkað virðingarleysi“