Niðurstaða rannsóknar, sem vísindamenn við Syddansk háskólann í Danmörku, gerðu sýnir að andleg líðan barna og ungmenna batnar ef fjölskyldan leggur skjáina frá sér í frítíma sínum.
Jesper Schmidt-Person, meðhöfundur rannsóknarinnar, sagði í samtali við TV2 að rannsóknin hafi leitt í ljós að það dragi mjög úr vandamálum barna og ungmenna í samskiptum þeirra við jafnaldra sína ef þau leggja skjáina frá sér. Það sama eigi við um kvíða, depurð og þunglyndi, það dragi mjög úr því ef þau eyði minna tíma við skjáinn.
Þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem sýnir tengsl á milli skjánotkunar barna og andlegrar líðanar þeirra. En það nýja er að nú er orsakasamhenginu slegið föstu.
Schmidt-Persson benti á að fyrri rannsóknir hafi verið takmarkaðar að ákveðnu leyti og því hafi ekki verið vitað með vissu hvort það væri skjánotkunin sem gerði andlegu heilsuna verri. Nýja rannsóknin sé hins vegar þannig úr garði gerð að með miklu meira öryggi sé hægt að segja að svo sé og að einnig sjáist að það sé ávinningur af því að skera skjátímann niður.