fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Pressan

Martröð á jólum sem endaði með björgunaraðgerð í anda hasarmynda

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 24. desember 2024 22:00

Björgunaraðgerð sérsveitar frönsku herlögreglunnar á flugvellinum í Marseille á annan í jólum 1994/Skjáskot Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi umfjöllun var áður birt 6. ágúst 2023 en er nú endurbirt í tilefni jólanna, í uppfærðri útgáfu.

Að morgni aðfangadags árið 1994 beið flugvél franska flugfélagsins Air France brottfarar á alþjóðaflugvellinum í Algeirsborg, höfuðborg Alsír. Förinni var heitið til Orly flugvallar í nágrenni Parísar, höfuðborgar Frakklands. Um borð voru 220 farþegar og 12 manna áhöfn.

Þótt um væri að ræða aðfangadag jóla var það líklega eins og venjulegur dagur í Alsír enda er íslam ráðandi trúarbrögð í landinu og því fer lítið fyrir jólahaldi. Á þessum tíma voru þó flestir dagar í Alsír óvenjulegir en 1991 hafði brotist út borgarastyrjöld í landinu eftir að herinn rændi völdum, helst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir aukin áhrif íslamista.

Í ljósi ástandsins í Alsír var áhöfn flugvélar Air France líklega vör um sig en henni brá samt sem áður ekki þegar skyndilega birtust fjórir vopnaðir menn um borð. Þeir voru klæddir í lögreglubúninga og hófu að skoða vegabréf farþega. Sumum um borð þóttu mennirnir þó grunsamlegir og einn þeirra sást bera dýnamít á sér.

Þetta tilstand tafði brottför vélarinnar sem fyllti alsírska herinn grunsemdum. Sérsveitarmenn hófu að nálgast vélina og þegar mennirnir tóku eftir því tilkynntu þeir að flugvélinni hefði hér með verið rænt. Þeir væru ekki lögreglumenn heldur liðsmenn íslamista og hefðu beint spjótum sínum að Air France sem væri táknrænt fyrir gömlu nýlenduherra Alsír, Frakkland, og heiðingja.

Mennirnir, sem voru undir forystu hins alræmda Abdul Abdullah Yahia, voru vopnaðir hríðskotabyssum, skammbyssum, heimagerðum handsprengjum og dýnamíti. Þeir voru ekki sáttir við að farþegar fylgdu ekki íslömskum hefðum. Þeir aðskildu konur og karla og létu allar konurnar hylja hár sitt.

Alþjóðaflugvöllurinn í Algeirsborg árið 2010. Mynd: Poudou99 – CC BY 3.0 – Wikimedia Commons

Pattstaða tekur við

Vélin hélt kyrru fyrir á flugvellinum til að byrja með. Innanríkisráðherra Alsír mætti í flugturninn og hóf samningaviðræður við ræningjana. Þeir kröfðust þess að tveir forystumenn íslamista yrðu látnir lausir úr stofufangelsi en ráðherrann vildi að fyrst myndu þeir sleppa börnum og eldri borgurum.

Helstu ráðherrar frönsku ríkisstjórnarinnar komu saman til neyðarfundar en erfiðlega gekk að fá skýra mynd af stöðunni í Alsír.

Eftir tvo tíma skipuðu flugræningjarnir flugstjóranum að fljúga af stað til Frakklands. Stigabílar voru hins vegar enn tengdir við vélina og ökutækjum hafði verið lagt í veg fyrir hana. Yfirvöld í Alsír voru staðráðin í að gefa ekkert eftir en flugræningjarnir sögðu að væri flugvélinni ekki hleypt í loftið myndu þeir sprengja hana í loft upp.

Við vegabréfaskoðunina komust ræningjarnir að því að einn farþeganna var alsírskur lögreglumaður. Þeir fóru með manninn í efsta þrep stigabílsins og skutu hann til bana. Alsírsk yfirvöld neituðu samt að leyfa brottför flugvélarinnar.

Ræningjarnir fóru þá með annan farþega, sem var víetnamskur ríkisborgari og starfaði í sendiráði Víetnam í Alsír, á sama stað og skutu hann einnig til bana.

Frönsk stjórnvöld þrýstu mjög á þau alsírsku að leyfa frönskum hermönnum að koma til landsins en þegar því var harðneitað var þess krafist að vélinni yrði leyft að fljúga til Frakklands. Vélin væri jú frönsk og um þriðjungur farþega franskir ríkisborgarar.

Ekkert hreyfðist og tíminn leið. Flugmennirnir reyndu sitt besta til að skapa einhver tengsl við ræningjana og fá þá til að líta á farþega og áhöfn sem manneskjur.

Flugvélin á flugvellinum í Algeirsborg. Skjáskot/Youtube

Að rúmlega hálfum sólarhring liðnum rann jóladagur upp. Ró var yfir farþegarými vélarinnar en það sama átti ekki við um frönsk stjórnvöld sem bárust upplýsingar um að flugræningjarnir ætluðu sér að brotlenda flugvélinni í París.

Um 50 farþegum var sleppt. Einkum konum með ung börn og heilsutæpu fólki. Flugræningjarnir buðust til að sleppa öllum farþegum með alsírskt ríkisfang en flestir þeirra höfnuðu tilboðinu. Einn þeirra sagði að hann teldi að ef alsírsku farþegarnir yfirgæfu vélina yrði franska áhöfnin drepin. Um 13 farþegum í viðbót var sleppt áður en jóladagur rann sitt skeið.

Að kvöldi jóladags var móðir Abdul Abdullah Yahia fengin á flugvöllinn til að sannfæra son sinn um að gefast upp. Hann reiddist því mjög og því var hótað að farþegi yrði myrtur á hálftíma fresti þar til að brottför yrði heimiluð. Því var enn ekki hlýtt og var þá franskur farþegi, sem starfaði í sendiráði Frakklands í Alsír, skotinn til bana.

Brottför loks heimiluð

Frönsk stjórnvöld kröfðust þess að alsírsk stjórnvöld myndu heimila brottför flugvélarinnar. Annars yrðu þau gerð ábyrg fyrir afleiðingunum. Brottförin var loks heimiluð 39 klukkustundum eftir að vélinni var rænt á flugvellinum.

Það var ekki nægt eldsneyti eftir til að fljúga til Parísar svo ákveðið var að fljúga til Marseille og taka eldsneyti þar. Abdul Abdullah Yahia fullvissaði flugstjórann um að flugvélin yrði ekki sprengd í loft upp á leiðinni.

Flugvélin lenti í Marseille aðfaranótt annars dags jóla. Sérsveit frönsku herlögreglunnar (Fr. Gendarmerie nationalevar þegar komin á staðinn. Sveitin hafði æft töku vélarinnar og var því við öllu búin.

Lögreglustjóri Marseille hóf viðræður við flugræningjana en fylgdi þar áætlun Denis Favier, yfirmanns sérsveitarinnar, um að gera allt til að tefja og þreyta þannig ræningjana. Frönsk stjórnvöld vissu að flugræningjarnir ætluðu sér að gera árás á París og það kom að sjálfsögðu ekki til greina að láta það gerast.

Það þótti renna frekari stoðum undir þessar upplýsingar að ræningjarnir báðu um mun meira eldsneyti en þurfti til að fljúga frá Marseille til París. Farþegar, sem sleppt var í Alsír, veittu upplýsingar um að flugræningjarnir hefðu komið dýnamítinu sem þeir voru með fyrir víða um flugvélina sem þótti benda til að þeir ætluðu að sprengja hana.

Ríkisstjórn Frakklands tók þá ákvörðun að flugvélinni yrði ekki leyft að yfirgefa Marseille, sama hvað það kostaði.

Djarfleg björgunaraðgerð undirbúin

Flugræningjarnir kröfðust þess að morgni annars í jólum að fá að fara. Frökkum tókst að tefja þá með því að flytja meira vatn og mat um borð og tæma klósettin. Það voru sérsveitarmennirnir, dulbúnir sem flugvallarstarfsmenn, sem sáu um það og þeir nýttu tækifærið til að koma fyrir hlerunarbúnaði og skoða aðstæður um borð.

Frönsku samningamennirnir buðu flugræningjunum að halda blaðamannafund um borð í flugvélinni í Marseille sem þeir samþykktu. Þeir voru beðnir um að flytja alla farþega aftast í flugvélina og leyfa að svæðið fyrir framan hana yrði rýmt.

Flugræningjarnir gerðu það en vissu ekki að þetta var hugsað til þess að auðvelda sérsveitinni að komast að flugvélinni og taka hana yfir. Það sem flugræningjarnir vissu einnig ekki var að mögulegt var að opna dyr flugvélarinnar að utanverðu.

Sérsveitin vildi bíða myrkurs en þegar ekkert bólaði á blaðamönnum urðu flugræningjarnir órólegir og skipuðu flugstjóranum að færa flugvélina sem hann gerði og var hún nú komin mun nær flugturninum og flugstöðinni sem skapaði enn meiri hættu.

Nauðsynlegt var að endurskipuleggja áætlun sérsveitarinnar í skyndi og flýta væntanlegri aðgerð. Flugræningjarnir ókyrrðust með hverri mínútu. Eldsneytið hafði ekki borist og síðdegis, þennan annan dag jóla, ætluðu flugræningjarnir að taka einn áhafnarmeðlim af lífi. Þeir voru hins vegar hikandi og hófu þess í stað að skjóta á flugturninn út um glugga flugstjórnarklefans.

Édouard Balladur, þáverandi forsætisráðherra Frakklands, veitti þá Denis Favier leyfi til að gera það sem hann teldi nauðsynlegt til að ná stjórn á ástandinu. Favier ákvað að hefja töku vélarinnar.

Édouard_Balladur forsætisráðherra Frakklands 1993-1995. Mynd: Evrópusambandið, CC BY 4.0- Wikimedia Commons

Björgunin hefst

Sérsveitin fór á þremur stigabílum að vélinni. Tveir áttu að fara að aftari dyrum vélarinnar sitt hvoru meginn á henni en sá þriðji að framdyrunum öðru meginn.

Akstur sérsveitarinnar á stigabílunum, innganga hennar í flugvélina að utanverðu og atburðarásin eins og hún blasti við fyrir utan flugvélina voru tekin upp af sjónvarpsmyndavélum, úr öruggri fjarlægð, og sýnd síðar á sjónvarpsstöðvum um allan heim.

Flugræningjarnir sáu stigabílana koma og vissu hvað var í aðsigi. Þeir byrjuðu að skjóta út um glugga flugstjórnarklefans á hópinn sem átti að opna framdyrnar.

Sérsveitin á leið að flugvélinni á stigabílum. Mynd: Skjáskot/Youtube

Þeim hóp gekk erfiðlega í byrjun að opna dyrnar þar sem stigabílinn var of hátt uppi en hæðin var lækkuð í hvelli, dyrnar opnaðar í kjölfarið og þessi fremsti hópur hóf inngöngu í flugvélina. Þeir hrópuðu á farþegana að fleygja sér í gólfið og skýla sjálfum sér eins vel og mögulegt var.

Flugræningjarnir hófu þegar skothríð en sérsveitin svaraði samstundis og náði strax að drepa einn þeirra. Strax í kjölfarið hófu hópar sérsveitarinnar sem fóru að báðum afturdyrunum inngöngu og gríðarlegur skotbardagi braust út um borð í flugvélinni.

Á þessari mynd má sjá einn sérsveitarmannanna verða fyrir skoti flugræningjanna, Mynd: Skjáskot/Youtube

Hundruðir byssukúlna flugu um farþegarýmið. Sérsveitin náði að gera flugræningjunum erfiðara fyrir með leiftursprengjum sem blinduðu þá um stund. Ein af heimagerðu handsprengjunum, sem flugræningjarnir höfðu haft með sér, sprakk en olli litlum skaða.

Leiftursprengja springur í flugstjórnarklefanum. Skjáskot/Youtube

Leyniskyttur voru um borð í flugturninum og beindu byssum sínum að flugstjórnarklefanum en aðstoðarflugstjórinn byrgði þeim sýn. Hann náði hins vegar að smeygja sér út um gluggann og stökkva niður á flugbrautina. Leyniskytturnar hófu þá skothríð á flugræningjana en flugstjórinn og vélstjórinn földu sig eins vel og þeir gátu og létu fara eins lítið fyrir sér og mögulegt var.

Eins farsæll endir og mögulegt var.

Á meðan fluttu sérsveitarmennirnir farþegana út um afturdyrnar sitt hvoru meginn á flugvélinni. Innan nokkurra mínútna hafði tekist að bjarga flestum farþeganna og skjóta þrjá af fjórum flugræningjum til bana.

Einn farþeganna fær vatn að drekka eftir að eldraunin er yfirstaðin. Mynd: Skjáskot/Youtube

Flugstjórinn og vélstjórinn voru enn í flugstjórnarklefanum með einum ræningjanna. Sá var í aðstöðu til að drepa þá en gerði það ekki.

Denis Favier sagði síðar að hann teldi að á þessum tæplega tveimur og hálfa sólarhring sem flugránið stóð yfir hafi ákveðin tengsl og gagnkvæm virðing skapast á milli flugræningjanna og gíslanna. Það hafi átt mikinn þátt í að allir farþegar og áhafnarmeðlimir sem eftir voru í flugvélinni þegar hún kom til Frakklands komust lífs af.

Síðasti flugræninginn náði að halda út í 20 mínútur en var loks skotinn til bana. Ákveðin óvissa var á vettvangi um hvort að tekist hefði að skjóta alla flugræningjana og m.a. var vélstjóri flugvélarinnar handjárnaður um stund. Að lokum tókst þó að fá á hreint að enginn áhafnarmeðlimur eða farþegi væri í raun einn af flugræningjunum. Aðgerðum sérsveitarinnar var formlega lokið og flugránið, sem hafði staðið í 54 klukkustundir var yfirstaðið.

Þessi djarfa björgunaraðgerð sérsveitar frönsku herlögreglunnar þótti hafa heppnast afar vel í ljósi þess að þrír áhafnarmeðlimir, þrettán farþegar og níu sérsveitarmenn slösuðust en enginn þeirra lífshættulega og enginn þeirra lét lífið.

Meðlimir sérsveitarinnar og áhafnar flugvélarinnar fengu heiðursorður fyrir frammistöðu sína í þessari eldraun. Sumir áhafnarmeðlimanna treystu sér hins vegar ekki lengur til að halda áfram störfum fyrir Air France.

Fyrrum liðsmaður alsírskra íslamista staðfesti síðar að það hefði verið ætlun flugræningjanna að sprengja flugvélina yfir Eiffel turninum í París.

Síðar náðu íslamskir öfgamenn að beita flugvélum sem vopnum, nánar tiltekið í Bandaríkjunum 11. september 2001. Vísað hefur verið til atburðanna í Alsír og Frakklandi á jólunum 1994 til að sýna fram á að yfirvöld í Bandaríkjunum og víðar hefðu átt að vera meðvitaðri um að slíkir hópar hefðu hug á að nota flugvélar með þeim hætti sem gert var þennan örlagaríka dag.

Hér má síðan sjá í heild sinni þátt úr þáttaröðinni Mayday þar sem fjallað er um flugránið og atburðarásina. Í þættinum má meðal annars sjá myndskeið af björgunaraðgerðinni eins og hún fór fram fyrir utan flugvélina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2

Regluleg neysla á dökku súkkulaði gæti minnkað líkurnar á sykursýki 2
Pressan
Fyrir 2 dögum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum

Svona langan tíma tekur það ketti að gleyma eiganda sínum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða
Pressan
Fyrir 5 dögum

Tekinn af lífi á afmælinu sínu

Tekinn af lífi á afmælinu sínu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?