En þannig er það hjá mörgum í Japan. Þar er gríðarlega vinsælt að borða djúpsteiktan kjúkling frá Kentucky Fried Chicken (betur þekkt sem KFC) um jólin. „KFC er klárlega orðið fastur hluti af jólahaldinu í Japan. Ég held nánast að það sé bara í eðli okkar að borða djúpsteiktan kjúkling um jólin,“ hefur Danska ríkisútvarpið eftir Natsuki Maruyama, sem býr í Osaka en bjó í Danmörku á síðasta ári. Hún sagðist ekki vera hrifin af skyndibitafæði en um jólin finnist henni það bara tilheyra. Hjá fjölskyldu hennar er venja að borða djúpsteiktan kjúkling á aðfangadag en það er hefð sem margar milljónir Japana hafa tekið upp.
Ekki er vitað með vissu hvernig þessi siður hófst en vitað er að KFC opnaði fyrsta veitingastað sinn í landinu í Nagoya 1970. Upp frá því virðist þessi siður hafa orðið til en mörgum sögum fer af því hvernig þetta þróaðist og breiddist út um landið.