Þó margir hafi talið að einhvers konar gabb hefði verið að ræða virtist Trump vera fúlasta alvara. Grænland er sem kunnugt er hluti af konungsríkinu Danmörku en hefur víðtæka sjálfstjórn. Danir fara með utanríkis- og varnarmál fyrir Grænlendinga sem eru þó með eigin landstjórn.
Sjá einnig: Þess vegna vildi Donald Trump kaupa Grænland
Eftir að Trump viðraði hugmynd sína árið 2019 hafnaði danska ríkisstjórnin því að hún gæti selt Grænlandi enda séu þau bara í ríkjasambandi. Og þegar Mette Frederiksen, forsætisráðherar Danmerkur, sagði hugmyndina fáránlega hætti Trump við opinbera heimsókn til Danmerkur.
Donald Trump tekur við völdum í Hvíta húsinu eftir um hálfan mánuð og hann tjáði sig um stöðu Grænlands á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, í gær. Þetta gerði Trump þegar hann tilkynnti hvern hann hefði valið til að gegna stöðu sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku.
Í færslu sinni sagðist Trump líta á það sem „algjöra nauðsyn“ í ljósi þjóðaröryggismála að Bandaríkjamenn eignuðust Grænland. Hann fór ekki dýpra ofan í saumana á því en talið er að málið sé ekki flóknara en svo en Trump vilji einfaldlega auka áhrif Bandaríkjanna á norðurslóðum.
Trump valdi Ken Howery, meðstofnanda greiðslumiðlunarfyrirtækisins PayPal, til að gegna stöðu sendiherra í Danmörku. Hann var sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð á árunum 2019 til 2021.
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps í Hvíta húsinu, sagði í ársbyrjun 2020 að yfirlýsingar Trumps um kaup á Grænlandi hefði verið hluti af taktískri áætlun Bandaríkjamanna. Þeir hefðu af því áhyggjur að Kínverjar myndu reyna að kaupa sig til áhrifa á norðurslóðum líkt og þeir hefðu gert við skuldsett smáríki til dæmis í Kyrrahafinu.
Kaupin á Grænlandi hafi átt að hræða Kínverja frá því að seilast til áhrifa á norðurslóðum.