Snjór þekur hlíðar eldfjallsins Teide á eyjunni sem margir Íslendingar þekkja svo vel, Tenerife. Snjór og hálka er einnig á vegum í næsta nágrenni fjallsins og leiðum inn í þjóðgarðinn sem umlykur fjallið hefur verið lokað vegna þessa.
Fjölmiðillinn Canarian Weekly greinir frá þessu.
Spænska veðurstofan rekur snjókomuna til óstöðugs lofts og mikils loftþrýstings yfir Kanaríeyjum. Rosa Dávila héraðsstjóri á Tenerife segir snjóinn á Teide og næsta nágrenni vera jólagjöf til íbúa eyjunnar og annarra eyja í Kanaríeyjaklasanum. Þetta sé þörf áminning um hversu fögur og einstök eyjan sé og hversu mikilvægt sé að varðveita hana.
Helstu vegir inn í þjóðgarðinn eru lokaðir vegna snjós og hálku en miðað við myndir sem fylgja umfjöllun Canarian Weekly er um að ræða aðstæður þar sem aldrei kæmi nokkurn tíma til greina á Íslandi að loka viðkomandi vegi. Frekari snjókomu er spáð á Tenerife á svæðum sem eru hærra en 1.800 metra yfir sjávarmáli. Í 2.400 metra hæð er búist við allt að 20 sentímetra jafnföllnum snjó.