Bandaríski þingmaðurinn Kay Granger er kominn nokkuð til ára sinna, en hún varð 81 árs á þessu ári. Án þess að nokkur tæki sérstaklega eftir því hafði hún verið fjarverandi á þingfundum síðan í júlí. Hún var þó enn að birta færslur á samfélagsmiðlum og allt virtist í lagi. Síðan greindu fjölmiðlar frá því að þingmaðurinn væri kominn á heimili fyrir heilabilaða, enda með alvarleg elliglöp. Enginn var látinn vita af þessum heilsubresti þingmannsins sem hafði enn verið á fullum launum. Granger var flutt á heimilið eftir að hún fannst illa áttuð á ráfi í hverfi sínu.
Fjölskylda hennar þvertekur fyrir að Granger sé á heimili fyrir heilabilaða. Hún hafi fengið nóg af íbúð sinni í Fort Worth og ákveðið að flytja í sjálfstæða búsetu fyrir aldraða. Sonur hennar viðurkenndi þó að í búsetuúrræðinu sé boðið upp á aðstoð fyrir fólk sem glímir við heilabilun, og gengst við því að móðir hans glími við ákveðna skerðingu.
Talsmaður Granger gaf út yfirlýsingu fyrir hennar hönd eftir fréttaflutninginn: „Ég er djúpt snortin yfir umhyggjunni og áhyggjunum sem ég hef fengið undanfarna daga. Eins og margir í fjölskyldu minni, vinir og samstarfsfélagar vita þá hef ég verið að glíma við ófyrirséðan heilsubrest undanfarið ár. Síðan í september hefur heilsufarinu farið mjög hrakandi sem gerði að verkum að tíð ferðalög til Washington voru bæði erfið og ófyrirsjáanleg.“
Samstarfsfélagar hennar í Repúblikanaflokknum hafa þó lýst yfir óánægju sinni með þessi endalok á pólitískum ferli Granger. Að hún hafi bara laumað sér í burtu og ekki gert neinar ráðstafanir til að tryggja að atkvæði þingsætis hennar gæti nýst flokknum, sem hefur mjög nauman meirihluta á þingi. Einnig hljóti Granger og fjölskylda hennar að hafa vitað um veikindin þegar hún sóttist eftir endurkjöri árið 2022.
Það var miðillinn Dallas Express sem vakti fyrst athygli á málinu og sagði málið vekja áleitnar spurningar. Svo sem hvers vegna kjósendum í kjördæmi Granger í Texas hafi ekki verið greint frá stöðunni, hvers vegna kjördæmið hafi í reynd ekki átt sér fulltrúa á þingi í næstum því hálft ár án þess að eftir því yrði tekið og hvers vegna Granger sagði ekki af sér þingmennsku þegar hún greindist með elliglöp.