Þetta hljómar kannski eins og byrjunin á þróunarbrandara en í raun gæti þetta verið eðlileg spurning því vísindamenn hafa fundið tvö fótspor frá þessum fjarskyldu ættingjum okkar á sama svæðinu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rutgers háskólanum að sögn videnskab.dk.
Fótsporin fundust þar sem nú er Turkanavatnið í norðurhluta Keníu. Einstaklingarnir, sem fótsporin eru eftir, gengu báðir uppréttir og hittust hugsanlega þegar þeir voru þarna á ferð. Þetta einstaklingar af tveimur tegundum manna sem tilheyra þróunarlínu okkar nútímamannanna.
Niðurstöður þrívíddarrannsókna og rannsóknir á fótsporunum benda til að þessir tveir einstaklingar hafi verið á svæðinu á sama tíma eða með nokkurra klukkustunda millibili.
Kevin Hatala, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir í fréttatilkynningu að með þessum gögnum sjáist hvernig ferðir fólks voru fyrir milljónum ára og hvernig það átti hugsanlega í samskiptum við annað fólk og jafnvel við dýr. Þetta sé eitthvað sem ekki sé hægt að lesa í út frá beinum eða steinverkfærum.
Vísindamennirnir telja að tegundirnar tvær hafi líklega vitað af hvor annarri á svæðinu og hafi hugsanlega áttað sig á að um tvær mismunandi tegundir væri að ræða.