fbpx
Sunnudagur 23.febrúar 2025
Pressan

Ótrúleg saga furðufuglsins sem var ranglega sakaður um tilraun til forsetamorðs

Pressan
Sunnudaginn 15. desember 2024 19:00

Paul Kevin Curtis. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Paul Kevin Curtis frá Mississippi í Bandaríkjunum hefur þótt sérvitur og af mörgum álitinn vera furðufugl. Hann vakti athygli fyrir að herma eftir Elvis Presley og að halda á lofti skrautlegum samsæriskenningum. Hann vakti hins vegar þjóðarathygli þegar hann var handtekinn vegna gruns um að hafa reynt að eitra fyrir þáverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama.

Það er vefmiðillinn All That´s Interesting sem segir sögu Curtis.

Hann var handtekinn skammt frá heimili sínu í apríl 2013. Næstu klukkustundirnar var hann yfirheyrður af fulltrúum alríkislögreglunnar, heimavarnarráðuneytisins og lögreglu bandaríska þingsins.

Hann var sakaður um að hafa reynt að senda forsetanum hið afar öfluga eitur rísin í pósti.

Í yfirheyrslunum sagðist hann hins vegar ekki vita hvað rísin væri. Hann neitaði öllum ásökunum sem á hann voru bornar og var augljóslega afar undrandi þegar honum var tjáð hvers vegna hann hefði verið handtekinn.

Eftir því sem leið á yfirheyrslunar fylltust löggæslumennirnir sífellt meiri óvissu um að þeir væru með þann mann í haldi sem sent hefði bréf þakin rísini til dómara á svæðinu, þingmanns á ríkisþingi Mississippi og til Obama forseta. Þeir spurðu Curtis hvort hann ætti hugsanlega óvini sem gætu verið færir um að reyna að koma sökinni á hann.

Curtis nefndi strax nafn Everett Dutschke en ástæðan að baki óvináttu þeirra er í furðulegri kantinum.

Ég er KC

Ástæðan fyrir því að böndin beindust að Curtis sem sendanda eiturbréfanna var að þau voru öll undirrituð á sama hátt:

„Ég er KC og ég er samþykkur þessum skilaboðum“ ( e. „I am KC and I approve this message“).

Curtis var þekktur í heimahögum sínum fyrir að birta langsóttar samsæriskenningar á vefsvæðinu MySpace og endaði hann allar færslur með þessum hætti og þess vegna var hann grunaður um bréfasendingarnar.

Hann byrjaði að herma eftir Elvis Presley á unga aldri og móðir hans er sögð hafa þekkt stórsöngvarann persónulega en Presley var eins og Curtis-mæðginin frá borginni Tupelo í Mississippi.

Ekki lifði þó Curtis af eftirhermustörfunum en á tíunda áratug síðustu aldar setti hann á fót eigið fyrirtæki sem bauð fyrirtækjum og stofnunum upp á húsvarðaþjónustu. Í desember 1999 var hann við störf á sjúkrahúsi og opnaði kæliskáp en þar inni blöstu við líkamshlutar og afskorið höfðuð manns sem Curtis hafði séð á bráðamóttöku spítalans nokkrum dögum fyrr.

Í pyttinn

Eftir þessa sjón var Curtis sannfærður um að spítalinn væri að selja líffæri og líkamshluta á svörtum markaði en sú staðreynd að hann er með geðhvarfasýki átti einnig sinn þátt í hversu auðvelt hann átti með að trúa slíku.

Eftir að forstjóri spítalans bað Curtis um að undirrita samning um að hann myndi láta af störfum fyrir spítalann þegar í stað varð hann enn sannfærðari um hið meinta samsæri og var beinlínis með þráhyggju fyrir því að sanna það. Þráhyggjan kostaði hann hjónabandið og samband hans við börn sín beið einnig hnekki.

Curtis gafst þó ekki upp við að básúna samsæriskenninguna og árið 2006 frétti hann af dagblaði sem var tilbúið að birta hvað sem var en það var í eigu áðurnefnds Everett Dutschke.

Enn furðulegri óvinur

Everett Dutschke var ekki síður skrautlegri en Paul Kevin Curtis. Hann kenndi bardagaíþróttir, var meðlimur Mensa, sem er félagsskapur fyrir fólk með mjög háa greindarvísitölu, og hafði sýnt því áhuga að bjóða sig fram til ríkisþings Mississippi. Dutschke hafði hins vegar verið bendlaður við þjófnaði og framhjáhald og því umdeildur.

Þegar Curtis bað Dutschke um að fjalla um samsæriskenningu hans í blaðinu neitaði sá síðarnefndi að gera það þar sem hann óttaðist að það myndi skaða stjórnmálaferil sinn. Eftir þessa neitun voru Curtis og Dutscke svarnir óvinir.

Dutschke tapaði hins vegar í kosningum til ríkisþingsins en hann bauð sig fram fyrir Repúblikanaflokkinn.

Á næstu misserum sökuðu þeir hvor annan um að leggja hinn í neteinelti. Dutschke skoraði á Curtis að mæta sér í taekwondo en ekkert varð af því og báðir sökuðu hinn um að hafa guggnað.

Eftir þetta fór að halla verulega undan fæti í lífi Everett Dutschke. Í upphafi árs 2013 var hann dæmdur í 90 daga fangelsi fyrir að standa nakinn við glugga á heimili sínu þegar hópur ungra stúlkna gekk framhjá. Hann var einnig ákærður fyrir að káfa á unglingsstúlkum. Curtis var duglegur að deila fréttum um þessi afbrot Dutschke sem var ákveðinn í að hefna sín.

Varpaði sökinni

Eins og fram kom hér áðan voru í apríl 2013 send þrjú bréf með eitrinu rísin í pósti til dómara og þingmanns í Mississippi og til Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna.

Í texta bréfanna var vísað til titils bókar Curtis um samsæriskenninguna um að spítalinn væri að stela líffærum og líkamshlutum. Í bréfunum var því haldið fram að einhver yrði að deyja til að bréfritarinn næði athygli umheimsins svo að samsærið yrði stöðvað. Þau voru síðan undirrituð með sama hætti og Curtis undirritaði færslur sínar á MySpace.

Það dugði til að löggæsluyfirvöld færu strax að gruna hann.

Dómarinn, sem fékk eitt bréfanna, taldi þó augljóst að einhver annar hefði sent bréfið sem hann fékk. Spurði dómarinn af hverju Curtis hefði undirritað bréfið ef hann hefði raunverulega verið sá sem sendi það.

Kom ekki á óvart

Fréttirnar af handtöku Curtis breiddust fljótt út og margir á svæðinu sem ræddu við fjölmiðla sögðu hana ekki hafa komið sér óvart. Curtis hagaði sér undarlega og væri bersýnilega ekki í andlegu jafnvægi.

Eftir sjö klukkustunda yfirheyrslur kom þó í ljós eins og áður segir að Curtis virtist ekkert hafa með bréfasendingarnar að gera og aðpurður um óvini sem kynnu að vilja varpa sök á hann kom nafn Dutschke strax upp.

Curtis var sleppt eftir að hafa verið rúma viku í haldi og Dutschke var handtekinn nokkrum dögum síðar. Hann neitaði í fyrstu en sönnunargögnin voru yfirþyrmandi. Heyrst hafði til hans tala um að búa til eitur, hann sást henda latex-hönskum og öndunargrímu, gögn um hvernig ætti að búa til rísin fundust í tölvu hans og einnig gögn um að hann hefði keypt fræ eins og þau sem rísin er unnið úr.

Dutschke játaði að lokum og var dæmdur í 25 ára fangelsi.

Curtis taldi þessa handtöku staðfesta enn frekar að samsæriskenningin sem hann hætti ekki að tala um ætti sér svo sannarlega stoð í veruleikanum.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Fimm orð 4 ára drengs leystu 30 ára gamla morðgátu

Fimm orð 4 ára drengs leystu 30 ára gamla morðgátu
Pressan
Í gær

Sagt hún væri með glútenofnæmi en greind með 4. stigs ristilkrabbamein – „Ég vil vera þessi 5%“

Sagt hún væri með glútenofnæmi en greind með 4. stigs ristilkrabbamein – „Ég vil vera þessi 5%“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Elon Musk sveiflaði keðjusög og lét Zelensky heyra það – Sjáðu myndbandið

Elon Musk sveiflaði keðjusög og lét Zelensky heyra það – Sjáðu myndbandið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Snarráður 12 ára drengur sló innbrotsþjóf í klofið með hamri

Snarráður 12 ára drengur sló innbrotsþjóf í klofið með hamri
Pressan
Fyrir 2 dögum

Mikill ótti eftir að lík fannst í tösku – „Allir eru hræddir“

Mikill ótti eftir að lík fannst í tösku – „Allir eru hræddir“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kínverjar herða tökin – Ekkert sleppur út

Kínverjar herða tökin – Ekkert sleppur út
Pressan
Fyrir 3 dögum

Porsche rekur 1.900 starfsmenn og endurlífgar bensínvélina

Porsche rekur 1.900 starfsmenn og endurlífgar bensínvélina
Pressan
Fyrir 3 dögum

Frændi meinta raðmorðingjans átti sér líka myrka fortíð – Arkitekt dauðans og presturinn frá helvíti

Frændi meinta raðmorðingjans átti sér líka myrka fortíð – Arkitekt dauðans og presturinn frá helvíti
Pressan
Fyrir 3 dögum

Af hverju myrti hún fjögur börn sín? – „Konan mín var ekki skrímsli“

Af hverju myrti hún fjögur börn sín? – „Konan mín var ekki skrímsli“