Það var hópur franskra og egypskra fornleifafræðinga sem gerði uppgötvunina sunnan við Aswan á svæði sem fór undir vatn þegar Aswan stíflan var byggð á sjöunda áratugnum. Áður en svæðið fór undir vatn var mikið starf unnið undir forystu UNESCO við að skrá og fjarlægja eins margar fornminjar og hægt var. En ekki tókst að flytja allar fornminjarnar tímanlega á brott og þær lentu þvi undir vatni.
Live Science segir að Aswan hafi verið mikilvægt fyrir Egypta til forna því borgin hafi verið nærri suðurlandamærum landsins og mörg mikilvæg hof hafi verið nærri henni.
Fornleifafræðingarnir vinna nú við að bera kennsl á og skrá ristur og texta sem eru undir vatni. Reiknað er með að fleiri merkar ristur og áletranir muni finnast á svæðinu.