fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Mistök og grín lögreglumanns reyndist dýrkeypt

Misheppnað grín lögreglumanns hafði mikil áhrif á rannsókn lögreglunnar

Pressan
Laugardaginn 14. desember 2024 22:00

Amagermaðurinn. Mynd: AB Tårnby

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mistök og tilviljanir réðu því að Amagermaðurinn svokallaði gekk laus í á þriðja áratug. Hann hefur verið sagður einn versti ofbeldismaður síðari tíma í Danmörku. Hann heitir Marcel Lychau Hansen og fæddist 1965. Þegar hann var loksins handtekinn hafði hann fjölda ofbeldisverka, morð og nauðganir, á samviskunni en það virtist ekki skipta hann máli, samviskuleysið virtist algjört. Dags daglega starfaði hann sem knattspyrnuþjálfari barna og ekki var annað að sjá en hann væri bara venjulegur og friðsamur maður.

Marcel var þriðji í röðinni af fjórum systkinum. Fjölskyldan bjó í nýju hverfi á Amager í Kaupmannahöfn þegar hann fæddist en þegar hann var tveggja ára flutti fjölskyldan í raðhúsahverfi nærri Dragør. Fjölskyldulífið virðist hafa verið gott. Marcel gekk ekki vel í námi en hann þótti sjarmerandi, óttalaus og góður í fótbolta. Hann hikaði ekki við að taka þátt í slagsmálum ef svo bar undir.

Á unglingsárunum hófst afbrotaferill hans. Hann fór að stela sígarettum, áfengi og skartgripum með því að brjótast inn á heimili fólks að næturlagi þegar húsráðendur voru heima. Marcel virtist algjörlega óttalaus og athafnaði sig á meðan húsráðendur sváfu vært. Félagi hans í innbrotunum segir að Marcel hafi virst njóta þess að stunda þessa iðju.

Líkið í teppinu

Þann 16. febrúar 1987 stóðu fjórir menn utan við íbúð Edith Andrup á þriðju hæð fjölbýlishúsi í Valby. Þeir vissu hvað beið þeirra fyrir innan dyrna því lyktin sem barst frá íbúðinni leyndi sér ekki. Þetta voru tveir lögreglumenn, starfsmaður gasfélags og formaður íbúasamtakanna. Hurðinni var sparkað upp.

Enn meiri gaslykt streymdi á móti mönnunum en búið var að skrúfa frá gaskrönum í eldhúsi Edith, sem var 73 ára. Á ganginum stóð logandi kerti á borði. Það var augljóst að einhver hafði ætlað að valda gassprengingu.

Greinilegt var að búið var að róta mikið til í íbúðinni. Í eldhúsinu blasti við gólfteppi sem var búið að vefja utan um lík Edith.

Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að Edith hafði verið kyrkt og að morðinginn hafði stolið skartgripum úr íbúð hennar. Nágranni hennar, á hæðinni fyrir ofan, sagðist hafa tekið eftir því kvöldið áður að skyndilega var hækkað mikið í sjónvarpinu hennar þegar fréttatíminn stóð yfir. Hún hringdi í Edith til að kvarta yfir þessu en ekki var svarað í símann.

Edith Andrup

 

 

 

 

 

 

Niðurstaða lögreglunnar var því að Edith hefði verið myrt um klukkan 19.30 þegar hljóðið í sjónvarpinu var skyndilega hækkað mikið. Morðinginn hafi gert það til að leyna því hvað var í gangi.

Sjónir lögreglunnar beindust fljótlega að þremur ungum starfsmönnum flutningafyrirtækis en þeir höfðu flutt húsgögn fyrir Edith hálfum mánuði áður. Einn þeirra vakti sérstaka athygli lögreglunnar: Marchel Lychau Hansen. Hann hafði hlotið dóm 1984 fyrir brot á vopnalögum en þá fannst haglabyssa í bíl hans. Nú grunaði lögregluna að hann hefði myrt Edith.

Mistök við rannsóknina

Í íbúð Edith fannst skófar á loki konfektkassa sem lá á miðju stofugólfinu. Farið var af samskonar Adidas-skó og Marcel notaði og stærðin var sú sama. Lögreglan var þess fullviss að Marcel hefði myrt Edith en það var eitt vandamál: Marcel var með fjarvistarsönnun og það var lögreglan sem hafði orðið honum úti um hana.

Fótsporið sem fannst á morðvettanginum. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

Þegar lögreglan lét reikna út hvenær morðinginn hefði skrúfað frá gasinu í íbúð Edith voru gerð mistök við útreikninginn. Niðurstaðan var að skrúfað hefði verið frá gasinu klukkan 10.30 daginn eftir morðið. Þetta þýddi þá að morðinginn hefði komið aftur til að skrúfa frá gasinu. Á þessum tíma var Marcel í vinnu með tveimur vinnufélögum sínum og hafði því fjarvistarsönnun sem lögreglan hafði í raun orðið honum úti um með þessum ranga útreikningi.

En lögreglumennirnir gleymdu honum ekki og aðeins þremur árum síðar munaði aðeins nokkrum sekúndum að þeir heyrðu nafn hans á nýjan leik í tengslum við afbrot.

Bræddi hálsmen Edith

Skömmu eftir morðið á Edith Andrup fór Marcel til Tino Loessin og hafði meðferðis kassa fullan af skartgripum. Tino keypti nokkra þeirra sem hann seldi síðan áfram til gullsmiða sem gátu brætt þá. Nokkrum dögum síðar sá Tino mynd af Edith í dagblaði og sá hann þá strax að um háls hennar hékk hálsfesti sem hann hafði keypt af Marcel nokkrum dögum áður.

Þetta hefði getað orðið Marcel að falli en Tino ákvað að segja lögreglunni ekki frá þessu, hann var hræddur við Marcel, sem hann var sannfærður um að hefði myrt Edith, og hann stundaði sjálfur afbrot og vildi því ekki ræða við lögregluna.

Lene Buchardt Rasmussen

Miðvikudaginn 29. ágúst 1990 fór Lene Buchardt Rasmussen, fertug kennslukona, frá heimili sínu í Sydhavn í Kaupmannahöfn út á Amager Fælled til að fylgjast með fuglum. Það var fallegur dagur, sólskin og blíða. En þetta var síðasti dagurinn í lífi Lene.

Eftir fimm daga leit á þessu stóra svæði sem Amager Fælled er fann áhöfn þyrlu blátt reiðhjól sem stóð upp við runna töluvert frá göngustíg. Hjólið var í eigu Lene. Lögregluhundar voru fengnir á vettvang og ekki leið á löngu áður en einn þeirra fann lík Lene undir hrúgu af trjágreinum. Hún hafði verið kyrkt og lík hennar falið 27 metra frá einum af mörgum göngustígum sem eru á Amager Fælled.

Reiðhjól Lene. Mynd: Danska lögreglan

 

 

 

 

Réttarmeinafræðingar fundu ýmislegt á fatnaði Lene sem var að öllum líkindum frá morðingjanum sem hafði nauðgað henni áður en hann kyrkti hana. Á þessum tíma var ekki enn kominn DNA-skrá sem var hægt að nota til samanburðar á þeim sýnum sem fundust. Sérfræðingar lögreglunnar gátu því aðeins vonað að þeim tækist að hafa uppi á morðingja Lene á annan hátt. Þeir urðu að hafa einhvern grunaðan til að geta borið DNA hans saman við sæði sem fannst á fatnaði Lene.

Mörg vitni voru yfirheyrð og mörg hundruð ábendingar bárust til lögreglunnar. Lögreglan lagði mikla vinnu í málið en það skilaði engum árangri. En það sem lögreglumennirnir vissu ekki var að þeir höfðu aðeins verið nokkrum sekúndum frá því að fá ábendingu sem hefði breytt öllu um gang málsins.

Fannst lögreglumaðurinn gera grín að sér

Eitt þeirra mörgu vitna sem hringdi í lögregluna dagana eftir að lík Lene fannst var maður á þrítugsaldri sem hafði verið að hjóla á Amager Fælled daginn sem Lene var myrt. Hann hringdi í lögreglustöð 4 á Amager til að skýra frá tveimur aðilum sem hann hafði séð á Amager Fælled þann 29. ágúst.

Vitnið sagði fyrst að hann hefði séð manneskju í töluverðri fjarlægð. Sú hefði snúið sér undan þegar hann hjólaði framhjá. Hann sagði að vegna fjarlægðarinnar hafi hann ekki verið viss um hvort um karl eða konu var að ræða.
Lögreglumaðurinn sagði honum þá, hálfhlæjandi, að hann hefði greinilega átt að vera með gleraugu. Vitnið móðgaðist svo við þetta að hann skellti á. Af þeim sökum náði hann ekki að segja hvern hann sá líka þennan dag á Amager Fælled. Það var maður sem lögreglan vissi góð deili á: Marcel Lychau Hansen.

Hjólreiðamaðurinn hafði veriði í skóla með Marcel og vissi því vel hver hann var en þar sem hann móðgaðist svo illilega við ummæli lögreglumannsins um gleraugun sagði hann ekki frá því að hann hefði séð Marcel þennan dag við morðvettvanginn.

Það liðu 20 ár áður en hjólreiðamaðurinn ræddi aftur við lögregluna en það var ekki fyrr en móðir hans hafði blandað sér í málið. En áður en það gerðist hafði morðinginn gerst sekur um „eina verstu nauðgun sögunnar í Danmörku“.

Voru vaktar af nauðgaranum

  1. desember 1995 var 23 ára kona í heimsókn hjá systur sinni sem bjó í einbýlishúsi við Ingolfs Allé í Kaupmannahöfn. Systirin fór í vinnu klukkan 5. Um klukkustund síðar vaknaði konan við að maður stóð yfir henni og otaði hníf að henni. Hann hafði komist inn um kjallaraglugga.

Hann neyddi hana til að fara með sér niður kjallara þar sem þrjár ungar stúlkur sváfu. Sú elsta var 15 ára og átti heima í húsinu. Móðir hennar var fjarverandi þessa nótt og því höfðu tvær vinkonur hennar, 14 ára tvíburar, gist hjá henni þessa nótt.

Húsið við Ingolfs Allé.

 

 

 

 

Maðurinn setti koddaver yfir höfuð skelfingu lostinna stúlknanna og konunnar og batt hendur þeirra.

“Þið megið ekki horfa á mig. Þið megið ekki sjá andlit mitt.“

Sagði hann.

Hann neyddi stúlkurnar til að gefa upp kennitölur sína og heimilisföng og frá þeirri 23 ára stal hann greiðslukorti og neyddi hana til að gefa upp pinnúmerið.

Nauðgaði þeim til skiptis

Hann yfirgaf síðan herbergið með annan tvíburann og sagði hinum að hann myndi drepa hana ef þær reyndu að flýja. Hann fór með hana inn á baðherbergi þar sem hann nauðgaði henni. Því næst nauðgaði hann hinum þremur, hverri á eftir annarri.

Þegar ofbeldinu linnti leitaði morðinginn í húsinu og fann skartgripaskrín en í því voru skartgripir að verðmæti sem svarar til um einnar milljónar íslenskra króna.

Hann skildi stúlkurnar og konuna eftir bundnar við eldhússtóla þegar hann yfirgaf húsið. Áður neyddi hann þær til að segja hvar þær áttu heima. Þegar hann yfirgaf húsið hafði hann verið þar í tvær og hálfa klukkustund.

Hann fór beint í hraðbanka og tók út sem svarar um 200.000 íslenskum krónum á greiðslukortið sem hann hafði neytt konuna til að afhenda sér.

Sérfræðingar lögreglunnar fóru nákvæmlega yfir húsið en fundu ekki eitt einasta fingrafar enda hafði hann verið með hanska. Fórnarlömbin sögðu lögreglunni að nauðgarinn hefði tekið hanskana af sér í augnablik þegar hann var að binda þær með sippubandi. Það var því tekið í vörslu lögreglunnar ásamt hnífnum sem maðurinn hafði notað.

15 árum síðar var DNA-tæknin orðin svo góð að sippubandið og hnífurinn voru tekin úr geymslu í þeirri von að á þeim fyndust ummerki um hver maðurinn væri.

En áður en niðurstaðan lá fyrir náði hann að láta til skara skríða á nýjan leik.

Nágranninn heyrði hana öskra

Að morgni 3. maí 2005 heyrði konan hljóð berast úr eldhúsinu í litlu íbúð hennar á Amagerkollegiet á Hovmålvej á Amager. Sekúndum síðar hafði hún verið yfirbuguð og hönd var sett yfir munn hennar svo aðeins örlítið öskur heyrðist.

Nágranni hennar heyrði öskrið en hugsaði ekki frekar út í það því ekki heyrðist meira.

Í herbergi númer 21 gat hinn óþekkti gerandi því bundið fyrir augun á konunni, sem var 24 ára, og næstu tvær klukkustundir voru hræðileg martröð fyrir hana.

Hann var mjög ógnandi og sagði henni að ef hún sæi andlit hans myndi hann drepa hana. Hann var svo drottnandi í framkomu að hún bað hann um að herða bindið fyrir augum hennar svo hún sæi hann örugglega ekki. Hann neyddi hana til að velja hverslags kynferðislegu ofbeldi hann ætti að beita hana. Þegar lögreglan spurði hana út í hvaða kynferðislega ofbeldi hann hefði beitt hana sagði hún að það hefði eiginlega verið allt sem hugsast gat.

Honum urðu á mistök

Eftir tæplega tvær klukkustundir skipaði maðurinn konunni að fara í bað. Hann tók síðan sængurfötin af rúmi hennar.

“Ef þú talar við lögregluna kem ég aftur og hef félaga minn með.“

Voru lokaorð hans þegar hann yfirgaf íbúðina með sængurverið hennar.

Það var augljóst að hann hafði reynt að leyna hver hann var og hafði fjarlægt öll ummerki áður en hann yfirgaf íbúðina. En honum höfðu orðið á ein mistök. Fórnarlambið mundi að á einhverjum tímapunkti hafði maðurinn fengið sér að drekka og taldi, miðað við hljóðin að hann hefði fengið sér að drekka úr mjólkurfernu sem var í ísskápnum hennar.

Mjólkurfernurnar í ísskápnum. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

Á stúti annarar mjólkurfernunnar, sem voru í ísskápnum, fundu sérfræðingar lögreglunnar DNA úr einhverjum öðrum en fórnarlambinu. Ekki var um annað að ræða en bíða eftir að einhver yrði handtekinn vegna málsins og bera þá DNA úr viðkomandi saman við sýnið. En það liðu fimm ár áður en það gerðist.

Mandy

Klukkan fjögur að nóttu dag einn í september 2010 er Mandy Johnson, 17 ára, á heimleið úr samkvæmi hjá vinum sínum. Það eru 500 metrar frá lestarstöðinni að heimili hennar á vesturhluta Amager, leið sem hún hefur margoft farið. Hún er með heyrnatól og syngur með tónlistinni sem glymur í eyrum hennar og tekur lítið eftir umhverfinu.

Skyndilega mætir hún karlmanni. Hún roðnar og skammast sína því hann hefur alveg örugglega heyrt hana syngja. Hún gengur áfram eftir hljóðlátri götunni. Nokkrum sekúndum síðar heyrir hún hratt fótatak fyrir aftan sig. Áður en hún veit af hefur maðurinn gripið um hana. Hann setur hönd fyrir munn hennar þannig að hún getur ekki öskrað.

Mandy finnst strax að hún sé að berjast fyrir lífi sínu og hún sparkar og slær til mannsins en án árangurs. Hún endar liggjandi á jörðinni fyrir framan manninn. Í örvæntingu sinni fer hún að hósta og gerir sér upp asma í þeirri von að hann láti hana vera. Hún segir honum að hún geti dáið af völdum asmakastsins.

Maðurinn er ískaldur, honum er alveg sama. Hún sér það í augum hans.

Hann segir henni að hætta þessu og dregur hana að inn í smáhýsahverfið Stjernelund. Á leiðinni nær Mandy að taka símann sinn upp og án þess að líta á takkaborðið nær hún að hringja í móður sína. Faðir hennar svarar syfjulega.

„Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja.“

Heyrir hann Mandy segja.

Án þess að segja orð tekur maðurinn símann af Mandy og leggur á. Hann hendir henni í grasið. Hún heyrir að rennilás er rennt og vasi opnaður. Hún er sannfærð um að hann sé að taka upp hníf en í staðinn tekur hann upp smokk.

Maðurinn nauðgar Mandy tvisvar sinnum. Að því loknu segir hann henni að telja upp í 5.000 áður en hún hreyfi sig. Hann lætur sig síðan hverfa.

Mandy byrjar að telja en hættir því þegar hún heyrir ekki lengur til mannsins. Hún stendur upp og tekur á rás heim í smáhýsi foreldra hennar í Stjernelund, það er í aðeins 300 metra fjarlægð.

Foreldrar hennar hringja strax í lögregluna. Allir eru í miklu áfalli. En nauðgarinn skal finnast.

Sönnunargagnið sem skipti sköpum

Fjölmennt lögreglulið kom á vettvang og hóf umfangsmikla vettvangsrannsókn. Fimm lögregluhundar voru notaðir við leit á svæðinu.

Einn hundurinn fór fljótlega að fylgja slóð út úr garðinum og út á gangstéttina. Skömmu síðar stoppaði hann og lagðist niður til að gefa til kynna að hann hefði fundið eitthvað. Umsjónarmaður hundsins sá strax hvað það var: Smokkur. Gat hugsast að ofbeldismaðurinn hefði misst smokkinn?

Það var búið að binda hnút á hann og lögreglumanninum sýndist að það væri sæði í smokknum. Hann hrósaði hundinum en þorði ekki að trúa því að þetta væri smokkur frá nauðgaranum en ef svo væri vissi hann að hér væri komið sönnunargagn sem gæti skipt öllu við rannsókn málsins.

Þann 21. október kom niðurstaða úr greiningu á DNA í sæðinu sem var í smokknum. Utan á smokknum fannst DNA úr Mandy. Í sæðinu fannst DNA úr óþekktum manni en þó ekki alveg óþekktum hjá lögreglunni. Rannsóknin sýndi að sami maður hafði myrt Lene Buchardt Rasmussen 1990 og nauðgað konunni á Amagerkollegiet 2005. Skyndilega er lögreglan mun nær því en áður að upplýsa þrjú mál.

En það er enn langt í land því lögreglan veit ekki hver maðurinn er, það er aðeins vitað að um einn og sama manninn er að ræða. Lögreglan veit að það er aðeins tímaspursmál hvenær maðurinn lætur til skara skríða á nýjan leik.

Þann 2. nóvember 2010 birtist Steffen Steffensen, lögreglufulltrúi, á sjónvarpsskjám flestra Dana og skýrir frá málinu og segir dönsku þjóðinni að hér sé um mann að ræða sem fremji hvert alvarlegt afbrotið á fætur öðru. Hann biður alla sem búa yfir einhverri vitneskju um hver maðurinn sé eða búi yfir upplýsingum um málin að hafa samband við lögregluna.

Mörg hundruð manns hafa samband við lögregluna með upplýsingar sem þeir telja skipta máli. Eitt þessara símtala reyndist mikilvægt, mjög mikilvægt.

Ábending númer 490 skipti sköpum

Tveimur dögum síðar hringdi gömul kona í lögregluna í Kaupmannahöfn. Hún var númer 490 í röðinni af þeim sem höfðu sett sig í samband við lögregluna vegna rannsókna málanna. Hún sagði að sonur hennar, reiðhjólamaðurinn sem móðgaðist við lögreglumanninn, hefði séð gamlan skólabróður sinn á Amager Fælled þann 29. ágúst 1990. Nafn skólabróðursins var Marcel Lychau Hansen en það nafn hafði oft komið upp í tengslum við rannsókn lögreglunnar.

Marcel var strax færður til yfirheyrslu og munnvatnssýni var tekið úr honum til DNA-rannsóknar. Marcel var sleppt að lokinni yfirheyrslu og lögreglumenn biðu með öndina í hálsinum eftir niðurstöðum DNA-rannsóknarinnar.

Svarið kom rétt fyrir klukkan 14 þann 12. nóvember.

„Þetta er hann. Þetta passar við sýnin okkar.“

Marcel var handtekinn síðar um daginn á heimili sínu Valby.

Nokkrum mínútum síðar fékk Mandy tilkynningu frá lögreglunni um að ofbeldismaðurinn hefði náðst.

En lögreglumennirnir voru ekki alveg sáttir. Þeir voru með góð sönnunargögn í höndunum varðandi morðið á Lene Buchardt Rasmussen og varðandi nauðganirnar á Amagerkollegiet og á Mandy Johnsen. En lögreglumennirnir voru þess fullvissir að Marcel hafi meira á samviskunni. Nú þurfti að upplýsa þau mál.

Rannsókn er hafin á nýjan leik á morðinu á Edith Andrup 1987. Lögreglumennirnir átta sig á að útreiknar á hvenær skrúfað var frá gasinu hafi verið rangir og að skrúfað hafi verið frá því á tímapunkti sem Marcel hafði ekki fjarvistarsönnun.

Þetta leiðir lögregluna til Tino Loessins sem er nú, 23 árum síðar, reiðubúinn til að segja lögreglunni frá hálsmeni Edith sem hann keypti af Marcel.

Gamalt DNA-sýni kom upp um hann

Fjórfalda nauðgunin frá Ingolfs Allé hafði aldrei verið upplýst á þeim 15 árum sem voru liðin frá henni. En nú voru sippubandið og hnífurinn tekin úr geymslu og rannsökuð með nýrri tækni. Á báðum fannst DNA úr Marcel.

Dómur

Þann 19. desember 2011 var Marcel Lychau Hansen fundinn sekur um að hafa myrt Edith Andrup og Lene Buchardt Rasmussen.

Hann var einnig fundinn sekur um grófar nauðganir, naugðanir á börnum yngri en 15 ára og rán í húsinu við Ingolfs Allé.

Hann var fundinn sekur um grófa nauðgun á konunni á Amagerkollegiet.

Hann var einnig fundinn sekur um að hafa nauðgað Mandy Johnsen og rænt hana.
Síðan var dómsorð lesið upp:

“Á þessum forsendum eruð þér Marcel Lychau Hansen dæmdir í ævilangt fangelsi.“

Viðstaddir í dómssalnum fögnuðu strax með lófaklappi en faðir Mandy, Kurt Johnsen, hrópaði:

„Þetta ætti að kenna þér lexíu, svínið þitt!“

Byggt á umfjöllun danskra fjölmiðla, þar á meðal Ekstra Bladet, TV2, BT og DR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Leikkona lést þegar hún tók þátt í hreinsunarathöfn

Leikkona lést þegar hún tók þátt í hreinsunarathöfn
Pressan
Í gær

„Mamma var með kórónuna þegar ég fór í bað“ sagði konungurinn

„Mamma var með kórónuna þegar ég fór í bað“ sagði konungurinn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“