Mikil ólga ríkir nú í Bandaríkjunum eftir að forstjóri UnitedHealthcare var myrtur í síðustu viku. Málið hefur kynnt undir óánægju landsmanna með einkareknar sjúkratryggingar þar sem stórfyrirtæki græða á þjáningum veikra. Auðmenn eru uggandi yfir stöðunni. Tryggingafyrirtæki hafa aukið mikið við öryggisgæslu og forstjórar þeirra láta lítið fara fyrir sér.
Fólk er nú í miklum mæli farið að benda á gífurlegan ójöfnuð í þjóðfélaginu og á þá staðreynd að misskipting auðs í Bandaríkjunum er nú orðin meiri en sá ójöfnuður sem leiddi til frönsku byltingarinnar á sínum tíma. Sumir telja að bylting liggi í loftinu.
Gamalt myndband hefur nú aftur farið á flug í netheimum. Myndbandið er 10 ára gamalt en þar varar auðmaðurinn Nick Hanauer aðra auðkýfinga við afleiðingum aukins ójöfnuðar. Hanauer er athafnamaður sem ekki hefur mikið farið fyrir í umræðunni en hefur þó komið við sögu víða í bandarísku viðskiptalífi. Hann var einn af fyrstu fjárfestum Amazon og stofnaði félagið aQuantive sem Microsoft keypti árið 2007 fyrir 6,5 milljarða dollara.
Hanauer byrjaði árið 2014 að vara við afleiðingum ójöfnuðar. Meðal annars með því að gefa út TedTalk fyrirlestur, en þaðan kemur áðurnefnt myndband.
„Ég er einn af þessu 0,01 prósenti sem þú heyrir og lest um. Ég er samkvæmt öllum raunhæfum skilgreiningum plútókrati. Það sem mig langar að gera hér í kvöld er að ræða beint við aðra plútókrata, til manna sem eru eins og ég því mér finnst tími til kominn til að við eigum smá samtal.“
Hanauer tók fram að hann sé stoltur kapítalisti og skammast sín ekkert fyrir það. Hann rakti feril sinn og tók fram að hann væri gífurlega auðugur og lifi lífi sem fæstir gætu ímyndað sér.
„Ég hef breiða innsýn í kapítalisma og viðskipti og mér hefur verið ríkulega launað með lífi sem fæstir geta ímyndað sér. Ég á fjölda fasteigna, snekkju, einkaþotu og svo framvegis. Hreinskilnislega sagt er ég ekki greindasta manneskjan sem þið munið hitta og ég er ekki sú duglegasta. Ég var meðalgóður námsmaður, ég hef enga sérstaka tæknikunnáttu og kann ekki að forrita. Velgengni mín er sannarlega afleiðing stórkostlegrar heppni. Heppni hvað varðar í hvers konar aðstæðum ég fæddist og á hvaða tíma. Ég er samt frekar góður í nokkrum hlutum. Fyrir það fyrsta þá er ég óvenjulega áhættusækinn og hitt er að ég hef góða tilfinningu, góða innsýn, í framtíðina. Ég held að þetta innsæi í framtíðina sé kjarni góðrar frumkvöðlastarfsemi.
Svo hvað sé ég framundan í dag, gætuð þið spurt. Ég sé heygafla. Þá meina ég heygafla í samhengi múgæsings. Því fólk eins og við plútókratarnir, á meðan fólk eins og við lifir lífi sem meðalmanninn getur ekki einu sinni dreymt um, þá eru hin 99% samfélagsins að hellast lengra og lengra úr lestinni.“
Hanauer rakti að árið 1980 áttu þeir ríkustu í Bandaríkjunum samanlegt um 8 prósent af öllum peningum samfélagsins. Á sama tíma átti lægri helmingur þjóðfélagsins 18 prósent. Munurinn hafi svo aukist mikið og þarna árið 2014 deildu þeir ríkustu rúmlega 20 prósentum af öllum auð landsins á meðan lægri helmingur þjóðfélagsins átti bara um 12-13 prósent. Að óbreyttu myndu þeir ríkustu eiga rúm 30 prósent árið 2044 og lægri helmingurinn aðeins 6 prósent.
„Vandinn er ekki smá ójöfnuður. Smá ójöfnuður er nauðsynlegur fyrir vel rekið kapítalískt lýðræði. Vandinn er að ójöfnuður er orðinn sögulega mikill í dag og eykst meira dag frá degi. Ef auður, völd og tekjur halda áfram að safnast fyrir á efsta toppi þjóðfélagsins mun samfélag okkar fara frá því að vera kapítalískt lýðræði yfir í ný-lénsskipulags samfélag, arðsemisveldi eins og í Frakklandi á 18. öldinni. Og eins og þið vitið var þetta skömmu fyrir frönsku byltinguna þar sem æstur múgur gekk um með heygaflana á lofti.“
Hanauer sagðist því vera með skilaboð til annarra plútókrata. Þeir þurfi að vakna til vitundar um stöðuna og hvað sé fram undan, því þegar lægri stéttirnar fái nóg þá verði auðmennirnir fyrir barðinu á reiði þeirra.
„Því ef við gerum ekkert til að laga þennan hrópandi efnahagslega ójöfnuð í samfélagi okkar þá verður heygöflunum beint að okkur. Því ekkert frjálst og opið samfélag getur viðhaldið þessum síaukandi efnahagslega ójöfnuði. Það hefur aldrei tekist og það eru engin dæmi um það í sögunni. Sýndu mér samfélag með gífurlegum ójöfnuði og ég mun sýna þér lögregluríki eða uppreisn. Heygaflarnir koma á eftir okkur ef við tökumst ekki á við þetta. Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Og það verður hræðilegt þegar þau koma á eftir okkur, hræðilegt fyrir alla, en sérstaklega fyrir okkur plútókratana. Ég veit að ég hljóma eins og einhver dyggðar-frjálshyggjumaður en ég er það ekki. Ég er ekki að færa siðferðisleg rök fyrir því að efnahagslegur ójöfnuður sé slæmur. Það sem ég er að segja er að aukinn efnahagslegur ójöfnuður er heimskulegur og mun falla um sjálfan sig. Aukinn ójöfnuður eykur ekki bara hættuna á heygöflum, hann er líka slæmur fyrir viðskiptin.“
10 year old TED talk; a warning to the rich, from the rich.
byu/FudgeRubDown inTikTokCringe