Þetta voru væntanlega síðustu orðin sem almenningur heyrði frá honum í langan tíma. Eystri-Landsréttur í Danmörku dæmdi hann til einnar þyngstu refsingarinnar sem hægt er í Danmörku. Hann var dæmdur til ótímabundinnar fangelsisvistar.
Þessari refsingu er beitt þegar sérstaklega hættulegir afbrotamenn eru dæmdir.
Tik-Tok-maðurinn heitir nú Theodor Lund en hét áður Mikkel Bentsen. Hann breytti nafni sínu eftir að undirréttur í Kaupmannahöfn dæmdi hann sömuleiðis til ótímabundinnar fangelsisvistar og sá Eystri-Landsréttur enga ástæðu til að milda dóminn.
Ekstra Bladet segir að Lund, sem er 32 ára, hafi varla sýnt svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp. Einu sýnilegu svipbrigðin voru að hann gnísti tönnum og beit sig í vörina.
Viðbrögðin voru önnur í dómsalnum en þar voru nokkur af fórnarlömbum hans og mátti heyra þær varpa öndinni léttar.
Lund var sakfelldur fyrir fimm nauðganir, tvær nauðganir á barnungum stúlkum og eina nauðgunartilraun. Þess utan var hann dæmdur fyrir sérstaklega grófa nauðgun og grófa árás á barnunga stúlku. Hann var einnig sakfelldur fyrir kynmök við barn, fjölda kynferðisbrota af öðru tagi en samfarir og ofbeldi og hótanir.
Málið hófst af alvöru 2021 þegar lögreglan í Kaupmannahöfn handtók hann. Þá höfðu rúmlega 50 konur og stúlkur kært hann fyrir grófar nauðganir, kynferðisbrot, hótanir og kúgun. Konurnar og stúlkurnar höfðu komist í samband við hver aðra í Facebookhópi sem kallaðist „Fórnarlömb Mikkel“.
Hann notaði samfélagsmiðla til að komast í samband við ungar stúlkur og konur. Hann þóttist oft vera starfsmaður fyrirsætuskrifstofu og væri að leita að fyrirsætum. Með þessu tókst honum oft að lokka þær til að senda sér myndir sem hann nýtti sér síðan.
Sum fórnarlömbin segja að hann hafi neytt þær til að framkvæma kynferðislega draumóra hans ef hann nauðgaði þeim ekki.
Viðurnefnið Tik-Tok-maðurinn fékk hann vegna þess að hann notaði samfélagsmiðla svo mikið til að komast í samband við fórnarlömbin.