Luigi Mangione, 26 ára hugbúnaðarverkfræðingur, er grunaður um morðið á forstjóra UnitedHealthcare. Forstjórinn, Brian Thompson, var skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan í síðustu viku og var rannsókn málsins sett í algjöran forgang hjá lögreglu.
Það heyrði svo til tíðinda á mánudaginn þegar lögreglan í Pennsylvaniu hafði afskipti af Mangione og fann í fórum hans þrívíddarprentaða byssu, hljóðdeyfi, fölsuð skilríki og stefnuyfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir ábyrgð á verknaðnum. Mangione var í kjölfarið handtekinn og ákærður fyrir vopnalagabrot, fölsun og fyrir að hafa í vörslum sínum vopn sem var notað við glæp,
Stefnulýsingin, eða svokallað manifesto, var sent helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna í gær. Fjölmiðlar ákváðu þó að birta ekki yfirlýsinguna. Það var sjálfstætt starfandi blaðamaður, Ken Klippenstein, sem reið á vaðið og birti stefnuyfirlýsinguna á samfélagsmiðlum og furðaði sig á þögn annarra miðla. Færslan vakti mikla athygli og í kjölfarið hafa aðrir miðlar birt yfirlýsinguna. Stefnulýsingin var handrituð og á tveimur stöðum var skriftin of óskýr til að hægt sé að fullyrða hvað Mangione skrifaði.
„Til alríkislögreglunnar, ég ætla að hafa þetta stutt því ég virði störf ykkar fyrir þjóðina okkar. Til að spara ykkur umfangsmikla rannsókn þá lýsi ég því einfaldlega yfir að ég á mér enga samverkamenn. Þetta var frekar auðveld framkvæmd, byrjenda félagsverkfræði, grunntölvuhæfni og mikil þolinmæði.
Glósubókin, ef hún hefur fundist, hefur að geyma grófa punkta og aðgerðarlista sem varpa ljósi á þetta allt. Tæknin mín var frekar afmörkuð enda starfa ég við verkfræði svo það er ekki miklum upplýsingum fyrir að fara um þann þátt. Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast.
Þessar afættur áttu þetta hreinlega skilið. Til áminningar bendi ég á að Bandaríkin eru með dýrasta heilbrigðiskerfi heims en eru þó í 42. sæti hvað varðar lífslíkur. United er [ógreinanlegt] stærsta fyrirtækið í Bandaríkjunum hvað varðar markaðshlutdeild, og einu fyrirtækin sem velta meiru eru Apple, Google og Walmart. Félagið hefur vaxið og vaxið, en hafa lífslíkur okkar aukist samhliða?
Nei, raunveruleikinn er sá að þessir [ógreinanlegt] hafa einfaldlega orðið alltof valdamiklir og halda áfram að misnota þjóð okkar í hagnaðarskyni því almenningur Bandaríkjanna hefur leyft þeim að komast upp með það.
Vandinn er klárlega flóknari en þetta, en ég hef ekki pláss og í raun ætla ég ekki að þykjast vera hæfasta manneskjan til að færa fullnægjandi rök fyrir þessu. Margir hafa vakið athygli á spillingunni og græðginni (t.d. Rosenthal, Moore), fyrir áratugum síðan en vandinn er enn til staðar.
Þetta er á þessum tímapunkti ekki lengur spurning um vitundarvakningu heldur snýst þetta um valdatafl. Svo virðist sem að ég verði sá fyrsti til að horfast í augu við stöðuna með þessari beinskeyttu hreinskilni.“
Lögreglan í New York greindi í dag frá því að fingraför Mangione hafi fundist á vettvangi morðsins. Engu að síður hefur Mangione neitað sök og virðist ætla að halda því fram að hann sé gerður að blóraböggli. Samsæriskenningar um málið njóta mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum, enda er Mangione álitinn eins konar réttlætisriddari. Aðdáendur hans telja að stefnuyfirlýsingin sé líklega fölsuð, enda þykir þeim ólíklegt að Mangione færi að mæra lögregluna í gagnrýnni stefnulýsingu gegn einkarekna sjúkratryggingakerfinu. Aðrir vilja hreint ekki trúa að Mangione sé sekur.
Netverjum þykir dularfullt hversu margar myndir lögreglan hefur tekið af Mangione og birt opinberlega. Vanalega séu teknar myndir af mönnum við handtöku og látið nægja að birta eina eða tvær. Lögreglan hafi þó myndað Mangione ítrekað, í mismunandi fötum og jafnvel standandi inni í fangaklefa. Þetta sé mjög óvenjulegt. Aðrir benda þó á að það sé á sama tíma óvenjulegt að sakamál veki jafn mikla athygli og morðið á Thompson og því við að búast að lögreglan nálgist fjölmiðla og rannsóknina með öðrum hætti en vanalega.
Aðrir benda á að myndirnar sem voru fyrst birtar af skotmanninum, sem voru teknar á Starbucks nokkrum mínútum fyrir morðið, séu klárlega ekki af Mangione. Rétt er þó að benda á að myndirnar eru í lítilli upplausn. Netverjum finnst þó að augabrúnirnar á Mangione, sem eru dökkar og fyrirferðarmiklar, hefðu sést jafnvel í þessari upplausn. Eins þykir aðdáendum furðulegt hvernig Mangione var handtekinn. Eftir tæpa viku á flótta hafi þessi klári og vel menntaði verkfræðingur, sem hafði tekist að komast undan lögreglunni eftir morðið, mætt á McDonalds með tösku fulla af sönnunargögnum og bara beðið eftir að einhver hringdi í lögregluna.
Lögreglan virðist þó sannfærð um að hafa náð rétta manninum og Mangione hafði vissulega glímt við heilsubrest, þurft að berjast fyrir læknismeðferð og lýst yfir andstyggð á kapítalisma. Hann hafði eins glímt við andleg veikindi. Vinir og vandamenn segja við fjölmiðla að hann hafi gengist undir aðgerð á baki fyrir nokkru síðan og eftir það dregið sig í hlé. Svo fyrir nokkrum mánuðum hafi hann látið sig hverfa og enginn heyrt í honum fyrr en hann var handtekinn.
Lögmaður Mangione, Thomas Dickey, segist þó ekki hafa séð nokkrar sannanir fyrir því að Mangione sé sekur. Til dæmis sé ekki einu sinni víst að byssan sem fannst á Mangione sé sú sama og banaði forstjóranum. Dickey er þekktur lögmaður og hefur meðal annars verið spurður hver sé að borga málskostnað Mangione. Dickey neitaði að svara því en tók þó fram að hann sé að drukkna í skilaboðum frá aðilum sem vilja styrkja málsvörnina.