The Guardian skýrir frá þessu og segir að morðin á 110 manns hið minnsta hafi verið verk „valdamikils glæpaleiðtoga“ sem var sannfærður um að veikindi sonar hans væru verk fólks sem stundar vúdú.
Er hann sagður hafa ákveðið að refsa eldra fólki og þeim sem iðka vúdútrú því fólkið gæti beitt göldrum gegn syni hans. Hann sendi meðlimi glæpagengisins inn á heimili fólks þar sem þeir völdu fólk úr og fluttu í virki glæpagengisins þar sem það var tekið af lífi.
Talsmaður SÞ sagði að 5.000 manns hafi látist í ofbeldisöldunni á Haítí það sem af er ári.
Algjört stjórnleysi hefur ríkt á Haítí mánuðum saman en þar takast glæpagengi á um völdin. Þau fara með völdin í 80& höfuðborgarinnar, Port-au-Prince, þrátt fyrir að fjölmennt kenískt lögreglulið, sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna og SÞ, hafi verið sent til borgarinnar.