Fátt hefur verið talað meira um undanfarna daga í Bandaríkjunum en morðið á Brian Thompson forstjóra eins af stærstu sjúkratryggingafyrirtækjum landsins. Fjallað hefur verið um morðið víða um heim og vakið hefur mikla athygli hversu mikillar gleði hefur orðið vart í Bandaríkjunum í kjölfar þess. Einn þeirra sem á bágt með að skilja þessa miklu gleði með að maður hafi verið skotinn til bana úti á götu er fjölmiðlamaðurinn heimsþekkti Piers Morgan en gestur í þætti hans viðurkenndi fúslega gleði sína.
Vísað hefur verið til bandaríska sjúkratryggingakerfisins til að skýra þessa miklu gleði sem orðið hefur vart vegna dauða Thompson. Réttlætir fólk ánægju sína meðal annars með því að fyrirtæki Thompson hafi valdið dauða og þjáningu fjölda fólks með því að neita að greiða fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu jafnvel þótt viðkomandi hafi verið vel tryggður. Vert er þá að hafa í huga að í Bandaríkjunum er fólk almennt sjúkratryggt hjá einkafyrirtækjum en ekki hjá hinu opinbera eins og venjan er í mörgum Evrópuríkjum.
Maður að nafni Luigi Mangione er í haldi grunaður um morðið.
Málið var rætt í þætti Piers Morgan, Uncensored, í gær og meðal gesta hans var blaðamaðurinn Taylor Lorenz sem sagðist vera glöð með morðið sem Morgan átti bágt með að trúa:
„Trúirðu ekki að lífið sé heilagt?“
„Ég trúi að lífið sé heilagt og ég held að það sé þess vegna sem ég fann fyrir gleði eins og svo margir aðrir Bandaríkjamenn.“
„Gleði? Í alvöru? Gleði yfir því að maður hafi verið tekinn af lífi?“
Við þessi orð Morgan dró Lorenz eilítið í land:
„Kannski ekki gleði en sannarlega ekki samúð.“
„Af hverju gerir þetta þig ánægða? Hann var eiginmaður, faðir sem var skotinn á miðri Manhattan.“
Lorenz svaraði með sama hætti og flestir sem hafa lýst sömu tilfinningum í garð morðsins á Thompson:
„Hvað með þá hundruði þúsunda Bandaríkjamanna sem hafa verið myrtir og þá tugi þúsunda sem hafa dáið af því að gráðugir stjórnendur sjúkratryggingafyrirtækja eins og þessi maður beita sér fyrir stefnu sem snýst um að neita því fólki sem er í viðkvæmustu stöðunni um heilbrigðisþjónustu.“
Sagðist hún vera ein þeirra milljóna Bandaríkjamanna sem horft hafi uppi á ástvini sína þjást og í mörgum tilfellum deyja vegna þessa.
Spurði Morgan hana þá afar beinskeyttrar spurningar:
„Ætti þá að drepa þá alla, þessa stjórnendur sjúkratryggingafyrirtækja? Myndi það fylla þig enn meiri gleði?“
Við þessa spurningu kom furðusvipur á Lorenz.
„Nei, það myndi ekki gera það.“
Lorenz brosti þá og hló létt sem virtist hneyksla Morgan stórlega. Hann sagði málið ekkert vera fyndið og þá vísaði Lorenz enn til bandaríska sjúkratryggingakerfisins og sagði afleiðingar þess ekki kalla fram hlátur. Sagði hún það ekki eiga að líðast að fólk skjóti hvert annað úti á götu en það góða sem morðið á Thompson hefði haft í för með sér væri að áhrifafólk væri í auknum mæli farið að ræða sjúkratryggingakerfið og vísaði til Morgan sjálfs en hafa ber í huga að hann er Breti og því alinn upp við opinbert heilbrigðiskerfi:
„Þú sagðist ekki skilja hvers vegna nokkur maður myndi sýna svona viðbrögð við að sjá forstjóra deyja en það hljómar eins og þú hafir aldrei þurft að eiga við bandaríska heilbrigðiskerfið á sama hátt og milljónir Bandaríkjamanna hafa þurft að gera.“
Morgan sagðist hafa kynnst bandarísku heilbrigðiskerfi. Það sé langt frá því fullkomið. Honum finnist það samt sem áður afar furðulegt að lýsa yfir gleði yfir því að maður í þeirri stöðu sem Thompson var í skuli vera myrtur.
Lenzs dró þá orð sín um að hún hefði fyllst gleði yfir morðinu til baka en það sé hins vegar ákveðið réttlæti þegar maður sem beri ábyrgð á þúsundum dauðsfalla hljóti sömu örlög.
Morgan hélt sig við það að hann væri furðu lostinn yfir því að fólk lýsti yfir ánægju með þetta morð. Aðrir gestir tóku síðan þátt í umræðunni en þáttinn í heild er hægt að sjá hér fyrir neðan: