Atvinnurekendur vilja gjarnan að starfsfólki sínu líði vel í vinnunni. Það hafi gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sé laust við streitu og almennt lukkulegt. Þetta þykir nú yfirleitt jákvæð stefna en það fer þó eftir því hvernig hún er útfærð. Fyrirtæki nokkuð ákvað að grípa til aðgerða til að draga úr streitu á vinnustaðnum og hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir vikið. Talsmaður fyrirtækisins segir gagnrýnina þó byggða á misskilningi.
Fyrirtækið heitir YesMadam og er starfrækt í Indlandi. Í vikunni var greint frá því að fyrirtækið hefði sagt upp um 100 starfsmönnum sem höfðu greint frá því í vinnustaðakönnun að upplifa mikla streitu. Fyrirtækið sagði í færslu til starfsmanna:
„Kæra teymi. Nýlega framkvæmdum við könnun til að reyna að skilja upplifun ykkar á streitu í vinnunni. Mörg ykkar deildu áhyggjum sínum sem við kunnum að meta og virðum. Sem fyrirtæki sem leggur áherslu á heilbrigt og stuðningsríkt umhverfi höfum við vandlega metið svörin. Til að tryggja að enginn upplifi streitu í vinnunni höfum við tekið þá erfiðu ákvörðun að segja skilið við þá starfsmenn sem greindu frá mikilli streitu. Þessi ákvörðun tekur gildi án tafar og þeir starfsmenn sem um munu fá frekari fyrirmæli. Takk fyrir samvinnuna.“
Málið vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum og fyrirtækið var harðlega gagnrýnt. YesMadam birti yfirlýsingu í dag þar sem útskýrt var að færslan sem olli fjaðrafokinu hafi verið liður í herferð til að vekja athygli á því hversu alvarlegur vandi streita er á vinnustöðum. Enginn hafi verið rekinn.
„Við biðjumst velvirðingar á uppþotinu sem nýleg færsla á samfélagsmiðlum hefur valdið þar sem gefið var til kynna að við höfum sagt upp fólki fyrir að upplifa streitu. Til að taka af allan vafa: enginn var rekinn frá YesMadam. Við myndum aldrei ráðast í svo ómanneskjulegar aðgerðir.“
Hér hafi verið um mislukkaða tilraun að ræða sem átti að vekja fólk til vitundar um streitu í vinnunni sem sé sífellt að aukast á gervihnattaöldinni þar sem fólk þurfi alltaf að vera með annan fótinn í vinnunni. Fyrirtækið tilkynnti enn fremur að það ætli að ræðast í aðgerðir til að gefa starfsfólki frídaga til að losna undan streitu. Starfsfólk eigi rétt á sex launuðum frídögum til að slaka á og fá að auki dekur. Þannig vill fyrirtækið stuðla að andlegri heilsu og hjálpa starfsfólki að losna undan streitu.
Ekki tókst fyrirtækinu þó að lægja öldurnar og er nú kallað eftir því að þeim aðila, sem fann upp á þessari misheppnuðu vitundarvakningu, verði sagt upp störfum.