Fljótlega eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna að nýju fór ógnvekjandi bylgja af stað á samfélagsmiðlum. Þar var konum tilkynnt að nú hefðu þær ekki lengur vald yfir eigin líkama heldur væri valdið í höndum karlmanna.
Bylgjuna má rekja til nýnasistans Nicholas J. Fuentes sem er stuðningsmaður Trump og þekkt nettröll. Fuentes elskar að vera stuðandi og eftir að Trump var kjörinn birti hann myndband þar sem hann tilkynnti konum að þær hefðu ekki lengur sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama. „Þinn líkami, mitt val,“ sagði Fuentes og vísaði þar til baráttunnar fyrir þungunarrofi. Baráttufólk fyrir þungunarrofi talar gjarnan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Þeirra líkami, þeirra val.
Orð Fuentes voru notuð til að ógna konum á netinu. Konum var hótað kynferðisbroti, þeim sagt að þær yrðu reknar aftur inn í eldhús, þeim yrði bannað að skilja við eiginmenn sína og þær yrðu þvingaðar til að eignast börn. Þetta varð til þess að konur ákváðu að svara fyrir sig og birtu baráttukonur persónuupplýsingar um Fuentes á netinu, meðal annars heimilisfang hans. „Þitt hús, okkar val“
Sumar konur gerðu sér ferð að heimili hans til að reyna að ná tali af Fuentes. Þetta varð til þess að Fuentes var handtekinn. 57 ára kona hringdi dyrabjöllunni hjá honum og hann mætti til dyra með piparúða og spreyjaði án þess að konan hefði ógnað honum með nokkrum hætti. Hann hrinti henni sömuleiðis niður stiga.
Konan, Marla Rose, segir í samtali við fjölmiðla að hún hafi aðeins ætlað að spyrja hvers vegna Fuentes leyfi sér að tala með þessum hætti til kvenna. Hún hafi ekki búist við þessum viðbrögðum enda 30 árum eldri en hann og aðeins um 150 cm á hæð. Hún ætlar að stefna honum í einkamáli og krefjast bóta. Lögreglan hefur ákært hann fyrir líkamsárás.
Fuentes var í kjölfarið handtekinn og sagði þá lögreglu að hann hefði óttast um líf sitt enda fengið mikið af líflátshótunum frá konum síðan hann birti umdeilda myndbandið. Eftir að honum var sleppt úr haldi gerði hann þó grín að handtökunni og fór að selja varning með myndinni sem lögreglan tók af honum. Fuentes heldur því fram að hann hafi aðeins verið að grínast með myndbandi sínu en konur hafi tekið því alltof alvarlega.