Mirror skýrir frá þessu og hefur eftir Lorna White, þrifasérfræðingi, að það sé hægt að þrífa örbylgjuofna á aðeins tveimur mínútum og ekki nóg með það, þú átt líklega allt sem þú þarft til þrifanna nú þegar í eldhúsinu.
Það þarf hálfa sítrónu og vatnsbolla. Vatn er sett í bolla, safinn úr hálfri sítrónu er kreistur út í og síðan er sítrónan sett út í vatnið.
Bollinn er síðan settur í ofninn og hann látinn ganga á hæstu stillingu í eina til tvær mínútur.
Þegar hann stoppar, skaltu láta gufurnar vinna fyrir þig. Lorna segir að ekki eigi að opna ofninn fyrr en eftir fimm mínútur en á þessum tíma losar gufan óhreinindin.
Þá er bara að þurrka þau af með tusku.
Það skemmir ekki fyrir að sítrónan skilur eftir sig ferska lykt í ofninum.