Lögreglan í New York leitar enn að skotmanni sem banaði forstjóra UnitedHealthcare (UHC) á miðvikudag. Forstjórinn, Brian Thompson, var á leiðinni á hluthafafund á hóteli í Manhattan þegar hann var myrtur. Skotmaðurinn er talinn hafa setið fyrir forstjóranum og því um einbeittan brotavilja að ræða í málinu.
Rannsókn málsins er í miklum forgangi hjá lögreglu sem meðal annars hefur heitið rúmri milljón í þóknun fyrir þá sem geta bent á skotmanninn. Skotmaðurinn hljóp af vettvangi, vippaði sér á rafhjól, hjólaði yfir í stóra almenningsgarðinn Central Park og náði að láta sig hverfa. Lögregla reynir nú að kortleggja ferðir skotmannsins fyrir og eftir morðið.
Myndir voru birtar í gær sem sýna andlit meints skotmanns. Myndirnar koma úr eftirlitsmyndavél hostels sem lögregla telur að skotmaðurinn hafi dvalið á. Þar má sjá andlit hins grunaða skýrt en á öðrum myndum er hann með grímu. Samkvæmt lögreglu hafði hann tekið niður grímuna á hostelinu til að daðra við starfskonu.
Eins hafa verið birtar óskýrari myndir sem sýna skotmanninn skömmu fyrir morðið þegar hann skrapp á Starbucks og keypti sér vatnsflösku og tvö próteinstykki. Lögregla telur sig hafa fundið vatnsflöskuna sem hinn grunaði hafði hent skömmu frá vettvangi morðsins. Á flöskunni fannst hluti fingrafars en það mun þá vera svo klesst að erfitt verður að nota það við rannsóknina. Ekki hefur komið fram hvort erfðaefni hafi fundist á flöskunni.
Nú eru nýjar vísbendingar komnar fram í málinu. Nú er talið að hinn grunaði hafi tekið rútu frá Atlanta yfir til New York þann 24. nóvember. Þá skráði hann sig inn á hostelið þar sem hann deildi herbergi með tveimur ókunnugum karlmönnum. Hann var mikið á ferðinni þessa tíu daga í aðdraganda morðsins og var yfirleitt með grímu yfir andliti sínu. Hann skráði sig svo út af hostelinu þann 29. nóvember en sneri aftur degi síðar. Hann borgaði með reiðufé og framvísaði fölsuðum skilríkjum. Lögregla vonast til þess að hann hafi verið kærulausari áður en hann kom til New York og er að kanna hvort hann hafi keypt rútumiða undir sínu rétta nafni.
Eins mun lögregla hafa fundið síma við rannsókn sína sem er talinn tilheyra skotmanninum. Tæknideild reynir nú að aflæsa símtækinu. Lögreglan hefur sagt við fjölmiðla að málið sé flókið enda erfitt að finna nál í heystakk, en um 8 milljónir búa í New York.
Málið hefur vakið mikinn óhug meðal tryggingafélaga í Bandaríkjunum. Listi yfir stjórnendur hefur verið fjarlægður af vefsíðu UHC og önnur fyrirtæki hafa aukið öryggisgæslu stjórnenda sinna. Flestum þykir ljóst að morðið megi rekja til starfa Thompson fremur en persónu hans, en UCH er eitt stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna og skilaði methagnaði samhliða því að vera það tryggingafélag sem oftast hafnar kröfum tryggingataka. Margir hafa lýst yfir reiði sinni yfir þessu kerfi á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Fólk hefur setið eftir með gífurlegar skuldir eftir að UHC neitaði að borga lækniskostnað. Sumir hafa ekki fengið læknisþjónustu því tryggingafélagið sagði nei og sumir hafa hreinlega látið lífið þó vel hefði verið hægt að bjarga þeim. Þetta kerfi hefur verið harðlega gagnrýnt í gegnum árin og meðal annars var skrifuð bók árið 2010 sem kallast Delay, Deny, Defend. Þar er fjallað um svokölluð 3D tryggingafélaganna, aðferðir sem þau nota til að víkja sér undan greiðsluskyldu. Á íslensku væri þetta sennilega tefja, neita, verja. Fyrst passa tryggingafélögin að það sé nægilega flókið að sækja um greiðslur og reyna að tefja ferlið eins og þau geta, því við það gefast margir upp. Ef það virkar ekki er farið í að neita kröfum tryggingataka og þá gefast enn fleiri upp og sætta sig við orðinn hlut. Loks er farið í að verjast kröfunni. Ef tryggingataki sættir sig ekki við nei og heldur málinu til streitu þá má alltaf yfirbuga hann í dómsal enda erfitt fyrir einstaklinga að verjast heilu lögfræðiteymi frá moldríku tryggingafélagi.
Þar sem Thompson var skotinn fundust skothylki. Á þau hafði verið letrað: Deny, Defend, Depose. Þetta er næstum bein tilvitnun í 3D tryggingafélögin nema því seinasta hefur verið breytt í depose sem getur bæði þýtt það að skrifa vitnaskýrslu í dómsmáli og að steypa einhverjum af stóli.
Málið hefur orðið til þess að allir samfélagsmiðlar í Bandaríkjunum loga. Fólk deilir hryllingssögum af samskiptum sínum við tryggingafélög og hversu hörmulegt það er þegar félögin neita að greiða lækniskostnað. Dæmi eru um foreldra sem hafa misst börnin sín og fá svo í andlitið milljóna reikning frá spítalanum eða tryggingafélaginu sína bara því foreldrið bað lækna um að reyna allt til að bjarga barni þeirra. Sumir kalla skotmanninn hetju og er meira að segja byrjað að selja bolið með orðunum sem fundust á skothylkjunum. Aðrir segja að þó svo fólk sé óánægt með tryggingafélög þá sé morð aldrei réttlætanlegt. Thompson hafi verið eignmaður, faðir og elskaður vinnufélagi.