Konan, Elizabeth Pollard, var á ferð í bíl með fimm ára barnabarni sínu á mánudag þar sem hún var að leita að kettinum sínum. Elizabeth brá sér út úr bifreiðinni en skilaði sér ekki til baka.
Steve Limani, lögreglufulltrúi í Marguerite í Pennsylvaníu, segir að við leit lögreglu hafi fundist mjög djúp hola skammt frá bifreið hennar. Telur lögregla að jörðin hafi opnast undir fótum Elizabeth og hún fallið ofan í.
Lögregla telur að holan sé um tíu metra djúp og tengist kolanámu á svæðinu sem var lokað fyrir rúmum 70 árum. Í frétt New York Times kemur fram að holur sem þessar séu algengar á svæðinu.
Slökkviliðsmenn með þar til gerðan búnað hafa unnið á svæðinu við að reyna að finna Elizabeth en enn sem komið er hefur leitin ekki borið neinn árangur. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp alla von um að Elizabeth finnist á lífi þó fátt gefi það til kynna.
„Við hættum ekki fyrr en við náum henni upp,“ segir Steve Limani við fjölmiðla á svæðinu.