Símtal milli vopnaðs manns og lögreglunnar í Ohio hefur varpað ljósi á þær skelfilegu aðstæður sem sjö ára dóttir hans mátti þola þar sem hún sagði föður sínum ítrekað að hún vildi ekki deyja.
Þann 11. nóvember nam Charles Ryan Alexander sjö ára dóttur sína, Oaklynn Alexander, á brott frá heimili ömmu hennar í Jefferson County í Ohio. Alexander sem var ekki með forræði yfir dótturinni hafði fyrst reynt að sækja dótturina í skólann en mistekist. Amber Alert var gefin út með lýsingu á bifreið Alexander og seinna um kvöldið fann lögreglan feðginin.
Þegar lögreglan reyndi að stöðva hann, flúði Alexander, sem leiddi til bílaeltingaleiks. Lögreglan sprengdi dekk bifreiðar hans og hann stoppaði á bílastæði í nærliggjandi bæ, Medina. Í samskiptum við lögregluna í síma hótaði Alexander að drepa dótturina og síðan sjálfan sig.
Í hljóðupptökum af neyðarlínusímtalinu sem yfirvöld í Medina-sýslu birtu, heyrist Alexander hóta lögreglu með því að segja að hann sé vopnaður á meðan hann segir dóttur sinni rólega að hún muni fara til himna.
„Ég mun skjóta okkur bæði, haldið ykkur frá,“ heyrist hann öskra á meðan á símtalinu stendur en heyra má í dóttur hans í bakgrunni grátbiðja hann. „Mig langar að tala við móður hennar. Ef þú ert að hlusta, Ashley, þú hefðir átt að hringja.“
„Hvernig veistu að við förum til himna?“ heyrist dóttirin spyrja. „Við förum bæði,“ svarar Alexander rólega. „Ég er að fara til himna?“ spyr hún áður en hún segir: „Nei! Ég vil ekki fara til himna í dag,“ segir hún skelfingu lostin.
„Ég vildi heldur ekki að þetta gerðist, ég vildi bara tala við mömmu þína,“ segir Alexander.
Einn af starfsmönnum neyðarlínunnar segir við Alexander: „Ég veit að þú vilt ekki meiða [dóttur þína] og þú vildir ekki að þetta væri svona. Við skulum ekki gera neitt sem við getum ekki afturkallað,“ segir starfsmaðurinn ítrekað við hann.
Má heyra dóttur hans ítrekað spyrja um að fara til himna. Á einum tímapunkti hrópar hún af skelfingu: „Ég vil ekki fara til himna í dag! Ég ætla ekki að deyja,“ segir hún ítrekað.
Annar starfsmaður neyðarlínunnar reynir að róa Alexander niður með því að hafa samúð með honum: „Haltu bara áfram að tala við hana ef þú vilt ekki að hún verði hrædd. Við skulum ekki gera neitt sem mun skaða hana, því þú elskar hana, ég veit að þú gerir það,“ segir starfsmaðurinn.
Alexander var síðar skotinn til bana af lögreglumönnum og barninu var bjargað, að sögn lögreglu í Medina-sýslu.