Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að konur séu líklegri en karlar til að deyja af völdum fylgikvilla áhættusamra hjartaaðgerða.
Í rannsókninni kemur fram að lífshættulegir fylgikvillar á borð við hjartaáfall og sýkingar greinist síðar hjá konum en körlum og það valdi því að dánartíðnin sé hærri hjá konum.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu JAMA. Í henni var unnið með sjúkraskrár rúmlega 860.000 sjúklinga sem fóru í mjög áhættusamar skurðaðgerðir á tímabilinu frá október 2015 þar til í febrúar 2020. Allar aðgerðirnar tengdust hjartanu eða æðakerfinu.
Í heildina fengu 15% sjúklinganna einhverja fylgikvilla í kjölfar aðgerðarinnar og var hlutfallið nokkuð jafnt hjá konum og körlum. En þegar horft er á heildarmyndina þá létust 11% kvennanna af völdum fylgikvilla en hjá körlunum var hlutfallið 8,6%.
Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að munurinn liggi líklega í því að læknar hafi ekki greint fylgikvillana eins snemma hjá konunum og körlunum og að þar af leiðandi hafi verið tekist á við þá seinna en hjá körlunum.