Daily Mail rifjar upp ummæli sem Trump lét falla fyrr á þessu ári á ráðstefnu íhaldsmanna í Maryland. Á henni gagnrýndi hann Harry harðlega fyrir „að hafa svikið“ Elísabetu Bretlandsdrottningu og sagði að yrði hann kjörinn forseti myndi hann ekki vernda Harry eins og Joe Biden gerði.
Harry greindi frá því í æviminningum sínum sem komu út í fyrra að hann hefði ítrekað tekið inn fíkniefni á lífsleiðinni. Meðal annars kókaín, töfrasveppi og gras.
Þetta varð til þess að samtökin Heritage Foundation stefndu Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna fyrir að hafa gefið Harry landvistarleyfi. Héldu þau fram að fíkniefnaneysla hans hefði átt að útiloka að hann fengi dvalarleyfi og vildu meina að hann hefði logið á umsókn sinni um dvalarleyfi.
Trump var ómyrkur í máli þegar hann tjáði sig um málið fyrr á árinu og sagði að Harry yrði ekki tekinn neinum vettlingatökum ef hann yrði kjörinn forseti. Hafi hann logið á umsókn sinni fengi hann enga sérmeðferð og yrði þá að líkindum vísað úr landi.
Fyrr í vikunni sagði Hugo Vickers, sérfræðingur í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar, að ef til vill væri sniðugt fyrir Harry og Meghan að hafa plan B fyrir hendi ef allt fer á versta veg.
„Það kæmi mér ekkert á óvart ef Trump segir: „Jæja, nú ætla ég að senda Harry Bretaprins úr landi“,“ sagði hann.
Harry og Meghan eru að sögn þegar búin að festa sér kaup á húsi í Portúgal.