Hættulegt atvik varð um borð í farþegaflugvél frá Ryanair sem flaug frá Bretlandi til Tenerife nýlega, vegna hegðunar farþega um borð. Þurfti flugstjóri að breyta flugleiðinni til að komast fyrr en áætlað var til lendingar á Tenerife. Flugumferðastjórar á Tenerife rýmdu svæði fyrir vélinni á flugvellinum vegna þessarar óvæntu breytingar.
Frá þessu er greint í Canarian Weekley. Segir í fréttinni að farþeginn hafi meðal annars migið á ganginn á milli sætaraðanna í vélinni.
Maðurinn var handtekinn strax eftir lendingu á Tenerife. Lögreglumenn komu um borð og leiddu hann í burtu. Má hann búast við ákæru og dómi fyrir athæfi sitt.
Flugumferðarstjórar á Tenerife greindu frá því á samfélagsmiðlinum X að áhöfn vélar í flugi frá Bretlandi hafi kallað eftir lögregluaðstoð vegna órólegs farþega um borð. Segir að flugumferð hafi verið forgangsraðað til að hliðra til fyrir lendingu vélarinnar fyrir áætlaðan lendingartíma.
Sjá nánar á Canarian Weekly.