Hópur vina var úti að skemmta sér þegar þeir gengu fram á eitthvað sem þeir töldu vera býsna raunverulega hrekkjavökuskreytingu: höfuðlaust lík og höfuðið skammt frá. Einn úr hópnum tók höfuðið upp og áttaði sig fljótlega á því, sér til mikillar skelfingar, að um alvöru höfuð af manneskju var að ræða.
Myndbönd af þessu hafa meðal annars verið í dreifingu á samfélagsmiðlum og hefur lögreglan í Edinborg biðlað til fólks að dreifa ekki myndum og myndböndum af líkfundinum.
Lögregla telur að fórnarlambið, 74 ára karlmaður, hafi dottið og orðið fyrir strætisvagni með fyrrgreindum afleiðingum skömmu áður en vegfarendur gengu fram á lík hans.
Lögregla var með talsverðan viðbúnað á svæðinu á laugardagskvöld og var götum lokað og fólki á nærliggjandi börum gert að yfirgefa þá meðan á vettvangsrannsókn lögreglu stóð.