The Times of India skýrir frá þessu og segir að maðurinn, Rohitash Kumar, hafi verið daufdumbur en hvort það hafi átt hlut að máli þegar hann var úrskurðaður látinn er ekki vitað.
Þegar búið var að flytja hann í líkbrennsluna á fimmtudaginn kom í ljós að hann var lifandi. Ættingjar hans fóru þá aftur með hann á sjúkrahúsið en þar lést hann síðan á föstudaginn.
Þrír læknar, sem úrskurðuðu hann látinn í fyrra skiptið, hafa verið sendir í leyfi á meðan rannsókn fer fram á málinu.
Kumar fékk flogakast og var úrskurðaður látinn eftir að enginn hjartsláttur mældist hjá honum á meðan á endurlífgunartilraunum stóð. Talsmaður heilbrigðisyfirvalda sagði málið bera vott um „alvarlega vanrækslu“.