En nú á þessu að ljúka, að minnsta kosti að mati spænskra yfirvalda sem sektuðu fimm lággjaldaflugfélög um 179 milljónir evra í síðustu viku. Eru þau sögð hafa stundað „ósanngjarna viðskiptahætti“. Þetta kemur fram á heimasíðu spænska neytendaréttarráðuneytisins.
Írska flugfélagið Ryanair fékk hæstu sektina eða 108 milljónir evra. Easyjet, Vueling, Norwegian og Volotea voru einnig sektuð.
Spænsk yfirvöld segja að flugfélögin hafi veitt villandi upplýsingar og að verðin hjá þeim hafi ekki verið gagnsæ. Segja yfirvöld að þetta „dragi úr möguleikum neytenda til að bera verð saman“ og taka upplýstar ákvarðanir.
Það sem flugfélögin voru sektuð fyrir er:
Að krefjast aukagreiðslu fyrir handfarangur í farangursrýminu.
Að krefjast aukagreiðslu fyrir að bóka ákveðin sæti, þegar fólk vill sitja saman, þrátt fyrir að fólk sé að ferðast með börn eða fullorðna einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda.
Að leyfa farþegum ekki að greiða með reiðufé á spænskum flugvöllum.
Að láta fólk greiða allt of háa fjárhæð fyrir að prenta brottfararspjald út á flugvöllum.
Sektarupphæðirnar voru reiknaðar út frá þeim „ólöglega hagnaði“ sem flugfélögin eru talin hafa orðið sér úti um með þessum starfsháttum.
Ráðuneytið segist hafa í hyggju að banna flugfélögum með öllu að krefjast sérstakrar greiðslu fyrir handfarangur og sætispantanir fyrir börn.