The Guardian segir að ræningjarnir hafi komið akandi á mótorhjólum að Hiéron safninu í Paray-le-Monial, í miðhluta Frakklands, um klukkan 16 á fimmtudaginn. Þrír fóru inn en einn stóð vörð fyrir utan að sögn Jean-Marc Nesme, bæjarstjóra.
Mennirnir hleyptu nokkrum skotum af og tóku síðan stefnuna á aðalsýningargrip safnsins, 3 metra verk frá 1904 sem sýnir líf Krists. Er það gert úr verðmætum málmum, skartgripum og fílabeini.
Verkið heitir Via Vitae og er flokkað sem þjóðargersemi af franska menningarmálaráðuneytinu. Það er metið á sem svarar til eins milljarðs íslenskra króna. Það samanstendur af 138 styttum sem eru demants- og rúbínskreyttar.
Ræningjarnir notuðu öfluga sög til að saga í gegnum skothelt gler sem var yfir verkinu. Þeir tóku síðan gull- og fílabeinsstyttur og fleiri muni.
Á flótta sínum frá safninu köstuðu þeir oddhvössum hlutum á vegina til að stöðva för lögreglubíla.