Þetta er niðurstaða rannsóknar. Fram kemur að vanilla sé í sérstaklega mikilli hættu. Samkvæmt niðurstöðunum þá eru 35% þeirra tegunda, sem voru teknar með í rannsókninni, í hættu vegna loftslagsbreytinganna. Þar á meðal eru villtar baunir, chili, trjátómatar og avókadó.
The Guardian hefur eftir Bárbara Goettsch, aðalhöfundi rannsóknarinnar, að ef ekkert verði að gert varðandi loftslagsvandann getum við sagt bless við avókadó og vanilluís.
„Villtar tegundir eru í sérstaklega mikilli útrýmingarhættu. Þessar tegundir geta ekki lagað sig að loftslagsbreytingunum. Þess utan valda loftslagsbreytingarnar því að meindýr og sjúkdómar leggjast á tegundirnar og það mun hafa mikil áhrif á þær,“ sagði Goettsch.
Þess utan hafa erfðabreyttar tegundir áhrif á villtu tegundirnar sem og skógareyðing og nýjar tegundir sem hasla sér völl og hafa slæm áhrif á þær tegundir sem fyrir eru.
Goettsch benti á að nú séu miklir þurrkar á Madagaskar, þeir mestu í 40 ár, og séu þeir gott dæmi um hvað getur komið fyrir villtar gróðurtegundir í framtíðinni. „Þurrkarnir á Madagaskar hafa eyðilagt uppskeruna. Á sumum svæðum er gríðarlegur fjöldi engispretta því loftslagsbreytingarnar valda því að þær geta farið yfir lengri veg en áður. Þetta er ógn sem steðjar að uppskeru,“ er haft eftir Goettsch.