Báturinn hans fannst mannlaus á vatninu og benti flest til þess að eitthvað hafi gerst sem varð til þess að hann drukknaði. Bíllinn hans fannst einnig á sínum stað, á bílastæði, við vatnið.
Umfangsmikil leit að líki hans skilaði engum árangri og heima sátu eiginkona og þrjú börn, sem allt í einu voru orðin föðurlaus, í sárum.
Á blaðamannafundi fyrir hálfum mánuði tilkynnti lögregla að hún hefði rökstuddan grun um að Ryan hefði sviðsett dauða sinn og farið til Evrópu til að hefja nýtt líf. Upplýsingar í tölvu hans gáfu þetta til kynna en þar hafði hann átt í samskiptum við ónafngreinda konu í Úsbekistan, opnað nýjan bankareikning og aflað sér upplýsinga um hvernig best væri að flytja fé úr landi.
Sjá einnig: Var talinn hafa látist í skelfilegu slysi í ágúst – Rannsókn á tölvunni hans leiddi annað í ljós
Rannsókn lögreglu leiddi einnig í ljós að daginn eftir að tilkynnt var um hvarf hans var leitað að nafni hans í gagnagrunni kanadísku lögreglunnar – sem benti til þess að hann hafi verið kominn að landamærunum daginn eftir að hann hvarf.
Í frétt New York Post kemur fram að Ryan sé kominn í samband við bandarísk löggæsluyfirvöld. Hann hafi meðal annars útskýrt hvernig hann fór að því að sviðsetja dauða sinn og af hverju hann gerði það. Hann hafi hins vegar ekki viljað segja lögreglu nákvæmlega hvar hann er, annars staðar en í Austur-Evrópu, eða hvort hann hafi yfir höfuð áhuga á að snúa heim.
Í fréttinni kemur fram að Ryan hafi tekið með sér út á vatnið gúmmíbát sem hann blés upp þennan örlagaríka dag í ágúst. Hann hafi svo hent farsímanum sínum í vatnið, velt kajaknum og farið á land í gúmmíbátnum. Þar beið hans rafhjól sem hann notaði til að hjóla um 100 kílómetra til borgarinnar Madison þar sem hann tók rútu til Detroit. Þaðan tók hann svo aðra rútu til Kanada áður en hann flaug frá Norður-Ameríku yfir til Evrópu.
Mark Podoll, lögreglumaður sem farið hefur með rannsókn málsins, segir við fjölmiðla að lögregla hafi rætt við Ryan á nánast hverjum degi síðan 11. nóvember. „Góðu fréttirnar eru þær að hann er á lífi og er heill heilsu. Slæmu fréttirnar eru þær að við vitum ekki nákvæmlega hvar hann er eða hvort hann ætli sér að koma aftur heim.“
Fari svo að Ryan ákveði að snúa aftur til Bandaríkjanna gæti hans beðið ákæra fyrir ýmsar sakir, þar á meðal fyrir að afvegaleiða lögreglu og viðbragðsaðila vegna hvarfs hans í sumar. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um slíkt.
„Jólin eru á næsta leiti og börnin hans gætu sennilega ekki fengið betri jólagjöf en að fá hann heim,“ segir Podoll.