Abstrakt listaverk sem samanstendur af banana sem hefur verið festur á vegg með einangrunarlímbandi seldist nýlega á uppboði í New York fyrir 6,2 milljón Bandaríkjadala sem nemur um 885 milljón krónum.
Hæsta boðið kom frá frumkvöðli sem hefur grætt mikið á rafmyntum.
Verkið heitir „grínisti“ og er eftir ítalska listamanninn Maurizio Cattelan. Verkið var frumsýnt árið 2019 í hátíðinni Art Basel Miami Beach. Gestir hátíðarinnar reyndu lengi að átta sig á því hvort að bananinn væri brandari eða ádeila á vafasama listsafnara. Á einum tímapunkti tók annar listamaður bananann af veggnum og borðaði hann.
Verkið vakti svo mikla athygli að það þurfti að fjarlægja það. Þrjár útgáfur þess seldust þó fyrir á bilinu 17-21 milljón samkvæmt listasafninu sem fór með umboð fyrir verkið á þeim tíma.
Nú fimm árum seinna hefur Justin Sun sem stofnaði rafmyntavettvanginn TRON borgað fjörutíufalt á við þá sem fyrst keyptu verkið. Þar sem bananinn er raunverulegur ávöxtur þá er ekki um varanlegt verk að ræða og því keypti Sun í raun vottorð um að hann hafi keypt verkið og hafi eftirleiðis heimild til að líma banana upp á vegg og kalla verkið „grínista“.
Justin Sun er hæstánægður með þennan rándýra banana sinn. Hann segir í yfirlýsingu að verkið tákni menningarlegt fyrirbæri sem sé brú milli heims listar, internet gríns og samfélag rafmynta. Hann hefur lofað því að á næstu dögum muni hann persónulega borða bananann og taka þar með þátt í þessum einstaka listgjörning.